Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, mun ekki gefa kost á sér til áframhaldandi formennsku í Samtökum atvinnulífsins (SA). Hann hefur verið stjórnarformaður samtakanna í fjögur ár.
Í tilkynningu segir Björgólfur að hann hafi í upphafi ætlað að gegna formennsku í SA í þrjú ár. Þau séu nú orðin fjögur og tímabært sé að nýr aðili taki við keflinu. „Ég vil þakka öllum þeim sem ég hef starfað með á vettvangi SA, stjórnarfólki og starfsfólki samtakanna og aðildarfélögum fyrir stuðninginn. Einnig vil ég þakka forsvarsfólki samtaka launþega fyrir traust og gefandi samstarf á undanförnum árum.“