Samþykktar kröfur í þrotabú Magnúsar Þorsteinssonar, athafnamanns sem var á meðal þeirra þriggja manna sem keyptu ráðandi hlut í Landsbankanum 2002, nema 24,5 milljörðum króna. Þetta hefur mbl.is eftir skiptastjóra búsins. Búskiptin hafa tekið um átta ár, en Magnús var úrskurðaður gjaldþrota vorið 2009. Búist er við því að lítið sem ekkert fáist upp í kröfurnar.
Þótt kröfurnar á hendur Magnúsi séu stjarnfræðilega háar, og ofar skilningi flestra venjulegra launamanna, er hann ansi langt frá því að eiga stærsta persónulega gjaldþrot Íslandssögunnar. Þann heiður eiga tveir aðrir einstaklingar sem voru í lykilhlutverkum í íslensku bankakerfi fyrir hrun. Annar er fyrrverandi viðskiptafélagi Magnúsar, Björgólfur Guðmundsson, og hinn er Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings. Raunar er persónulegt gjaldþrot Sigurðar stærra en flest gjaldþrot fyrirtækja í Íslandssögunni.
Magnús Þorsteinsson 24,5 milljarðar
Magnús Þorsteinsson var hluti af hinum svokallaða Samson-hópi sem keypti 45,8 prósent hlut í Landsbanka Íslands á gamlársdag 2002. Aðrir í hópnum voru feðgarnir Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson. Þremenningarnir höfðu þá nýverið selt drykkjarverksmiðju í Rússlandi til Heineken og efnast mjög á þeim viðskiptum.
Magnús seldi sig síðar út úr Samson og einbeitti sér að fjárfestingum í flutningastarfsemi og flugrekstri. Hann var þá meðal annars orðinn aðaleigandi Avion Group sem rak meðal annars Air Atlanta. Auk þess keypti Avion Group síðar Eimskipafélagið.
Staða Magnúsar varð strax mjög slæm eftir hrunið og hann missti flestar eignir sínar. Hann flutti í kjölfarið lögheimili sitt til Rússlands þar sem hann hefur stundað viðskipti sem lítið er vitað um alla tíð síðan. Nokkrum mánuðum eftir lögheimilisflutninginn var Magnús úrskurðaður gjaldþrota á Íslandi og nú, tæpum átta árum síðar, liggur fyrir að kröfur í búið nema 24,5 milljörðum króna.
Björgólfur Guðmundsson 85 milljarðar
Björgólfur Guðmundsson fór með himinskautum fyrir bankahrun. Hann hafði upplifað smán vegna Hafskipsmálsins svokallaða á níunda áratugnum, þar sem hann hlaut dóm, og upplifði kaup sín og viðskiptafélaga sinna á Landsbanka Íslands 2002 sem uppreista æru. Í kjölfarið settist Björgólfur í stól formanns bankaráðs bankans og sat þar fram að hruni.
Hann fjárfesti einnig mun víðar, meðal annars í Eimskipafélaginu og í enska knattspyrnufélaginu West Ham. Þá voru félög í eigu Björgólfs umsvifamikil í fasteignaverkefnum og eitt þeirra ætlaði meðal annars að standa að uppbyggingu á tónlistarhúsinu Hörpu. Í lok árs 2007 voru eignir Björgólfs metnar á 1,2 milljarða Bandaríkjadali. En, líkt og hjá mörgum öðrum íslenskum auðmönnum, var upphefðin fengin að láni og eigið fé verulega uppblásið.
Björgólfur var í persónulegum ábyrgðum fyrir hluta sinna lána og í lok júlí 2009 var hann úrskurðaður gjaldþrota að eigin ósk. Þrotið var þá það langstærsta í Íslandssögunni sem einstaklingur hafði farið í.
Skiptum á búinu lauk í maí 2014. Alls námu samþykktar kröfur 85 milljörðum króna einungis 35 milljónir króna fengust upp í þær.
Sigurður Einarsson 254,4 milljarðar
Fyrrverandi starfandi stjórnarformaður Kaupþings, Sigurður Einarsson, á Íslandsmetið í gjaldþroti einstaklings. Sigurður gengdi lykilhlutverki í vexti og á endanum falli Kaupþings, sem varð stærsti banki landsins á árunum fyrir hrun. Hann átti umtalsverðan hlut í Kaupþingi á eigin kennitölu og greiddi meðal annars fyrir þann hlut með lánum frá bankanum sjálfum. Árið 2012 var Sigurður dæmdur til að greiða tæplega 500 milljónir króna auk dráttarvaxta vegna persónulegrar ábyrgðar á þeim lánum sem hann fékk hjá Kaupþingi til að kaupa hlutabréf í bankanum. Sigurður hafði fengið 5,5 milljarða króna lán til kaupanna og krafðist slitastjórnin tíu prósenta endurgreiðslu, eða um 550 milljóna króna. Áður hafði slitastjórnin fellt úr gildi fyrri ákvörðun stjórnar Kaupþings um að fella niður persónulegar ábyrgðir lykilstarfsmanna bankans á lánum til þeirra.
Þá skattlagði íslenska ríkið kauprétti hans þannig að Sigurði var gert að greiða 700 milljónir króna í tekjuskatt. Þessar tölur voru þó, á endanum, dropi í hafið.
Sigurður óskaði eftir gjaldþrotaskiptum í september 2015. Í janúar 2016 var skiptunum lokið. Alls var kröfum upp á 254,4 milljarða króna lýst í búið. Upp í þær fengust 38,3 milljónir króna. Sú upphæð kom til, samkvæmt frétt RÚV um málið, vegna þess að Kaupþing hafði tekið veð í helmingshlut Sigurðar í einbýlishúsi á Seltjarnarnesi og er um að ræða söluandvirði þess hlutar. Ekki var tekin afstaða til þess hvort allar kröfurnar voru réttmætar.
Félagið Chesterfield United á Bresku jómfrúreyjum lýsti stærstu kröfunni, alls 99 milljörðum króna. Næststærsti kröfuhafinn var Deutsche Bank, sem lýsti 73 milljarða króna kröfum. Þar á eftir var félagið Murray Holdings með 58 milljarða króna kröfur. Arion banki lýsti 21 milljarðs króna kröfu.