Hvalaskoðun á Húsavík hefur vaxið jafnt og þétt sem atvinnuvegur í bænum en í fyrra fóru 110 þúsund gestir í hvalaskoðun í bænum, að því er fram komu í erindi Guðbjarts Ellerts Jónssonar, framkvæmdastjóra Norðursiglingar, sem er stærsta ferðaþjónustu fyrirtækið í bænum og hefur boðið upp á hvalaskoðun á Skjálfanda við Húsavík frá árinu 1995. Þá komu 1.500 gestir.
Fleiri fyrirtæki bjóða einnig upp á hvalaskoðun á Skjálfanda, samhliða annarri starfsemi. Svo sem Húsavík adventures, Gentle Giants og Salka Whale Watching, en aðstanendur þess félags reka einnig veitingastaðinn Sölku, í hjarta bæjarins.
Greint er frá ítarlegu erindi Guðbjarts á vef Framsýnar, stéttarfélags.
Vöxturinn hefur verið stöðugur alveg frá stofnun og voru gestirnir sem heimsóttu Húsavík gagngert til að fara í hvalaskoðun um 40 þúsund talsins árið 2007.
Síðan hefur vöxturinn orðið enn meiri, eftir að ferðaþjónusta tók mikinn kipp í landinu, frá árinu 2010. Útlit er fyrir áframhaldandi vöxt fyrirtækisins og er það nú búið að setja á fót dótturfélag í Noregi sem hefur hafið starfsemi, og býður upp á siglingar, hvalaskoðun og skíðaferðir í norður Noregi.
Á dögunum fengu bræðurnir Hörður og Árni Sigurbjarnarsynir, sem eiga ríflega helmingshlut í Norðursiglingu og eru jafnframt stofnendur fyrirtækisins, nýsköpunarverðlaun Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands fyrir starf sitt við uppbyggingu fyrirtækisins.
Eigendur þess eru nú sjóðurinn Eldey, sem á ríflega 36 prósent hlut, fyrrnefndir Hörður og Árni, sem eiga um 25 prósent hlut hvor, og Heimir Harðarson, sonur Harðar og starfsmaður fyrirtækisins frá stofnun, með ríflega 13 prósent hlut.
Í dag telur skipafloti félagsins 10 skip þar af 4 skútur. Á árinu 2016 var starfsmannafjöldi í heildina yfir 150 starfsmenn, og heildarfjárfestingar námu yfir 500 milljónum króna.
Guðbjartur lét hafa eftir sér í erindinu að í rekstri sem þessum þyrfti þor og kænsku til að ná settu marki. „Menn verða að þora að þora,“ sagði Guðbjartur Ellert, að því er segir á vef Framsýnar.