Miklu færri óskráðir innflytjendur komu til Bandaríkjanna frá Mexíkó í febrúar síðastliðnum en í janúar. Þetta segir John Kelly heimavarnarráðherra í ríkisstjórn Donalds Trump.
Að sögn Kelly fækkaði innflytjendunum um 40 prósent milli mánaða, eftir að Trump tók við embætti þann 20. janúar og lofaði að vísa úr landi miklum fjölda óskráðra innflytjenda. Talið er að um ellefu milljónir slíkra innflytjenda séu í landinu.
Það að meta fjöldann og breytingar á honum er vandkvæðum háð, en yfirleitt er það gert út frá fjölda þeirra sem nást eða er komið í veg fyrir að fari yfir landamærin. Að sögn Kelly fækkaði þessum tilvikum úr 31.578 í janúar í 18.762 í febrúar. Hann sagði að venjulega væri fækkun á milli þessara tveggja mánaða, en hún væri 10 til 20 prósent sögulega séð.
Trump fyrirskipaði að byggja ætti vegg meðfram landamærum ríkjanna tveggja þann 25. janúar síðastliðinn, eftir að hafa lofað því í kosningabaráttunni.
Fleiri fara en koma
Þróunin hefur verið þannig að fleiri mexíkóskir innflytjendur hafa yfirgefið Bandaríkin á undanförnum árum en hafa sest þar að. Þetta sýndi rannsókn Pew rannsóknarstöðvarinnar í Bandaríkjunum frá lokum árs 2015, en niðurstöðurnar eru þvert á það sem ætla mætti af umræðunni sem hófst í kringum forsetakosningar í Bandaríkjunum. Ólöglegum innflytjendum frá Mexíkó fer jafnframt fækkandi.
Mexíkóar eru stærsti innflytjendahópurinn í Bandaríkjunum, hvort sem litið er til ólöglegra innflytjenda eða skráðra. 28% allra innflytjenda í Bandaríkjunum árið 2013 voru fæddir í Mexíkó samkvæmt opinberum tölum og samkvæmt þeim tölulegu gögnum sem til eru er tæplega helmingur ólöglegra innflytjenda í landinu frá Mexíkó, eða 5,6 milljónir manna.
Frá því að kreppunni lauk um mitt ár 2009 hafa fleiri innflytjendur frá Mexíkó farið aftur til síns heima en hafa komið til Bandaríkjanna. Ein milljón Mexíkóa, þar á meðal börn sem fæddust í Bandaríkjunum, fór frá Bandaríkjunum og til Mexíkó á árunum 2009 til 2014, samkvæmt mexíkóskum gögnum. Á sama tímabili komu 870 þúsund mexíkóskir ríkisborgarar til Bandaríkjanna frá Mexíkó.
Ýmsar tilgátur eru uppi um ástæðurnar fyrir því. Bandaríska hagkerfið náði sér ekki eins hratt á strik eftir kreppuna og það gæti hafa stuðlað að því að færri sjái sér hag í því að flytjast til Bandaríkjanna. Jafnframt getur það hafa haft þau áhrif að mexíkóskir innflytjendur hafi misst vinnuna og farið aftur heim. Þá hefur innflytjendalögum verið fylgt harðar eftir, sérstaklega á landamærunum við Mexíkó, og það hefur undanfarin tíu ár skilað sér í því að fleirum er vísað úr landi. Engu að síður fór stærsti hluti þeirra sem héldu aftur til Mexíkó síðustu fimm ár af sjálfsdáðum, samkvæmt mexíkóskum rannsóknum, og algengasta ástæðan var sögð fjölskyldusameining.