„Fréttir af enn einu andlátinu við Silfru er þyngri en tárum tekur. Ég, ásamt þjóðgarðsverði og öðrum stofnunum, hef ákveðið að loka svæðinu og láta gera úttekt og áætlun um öryggi þeirra ferðamanna sem hana sækja.“
Þetta segir Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra, á Facebook síðu sinni.
Eins og greint var frá í dag, þá lést maður eftir að honum hafði verið bjargað meðvitundarlausum úr Silfru á Þingvöllum í dag. Lögreglan á Suðurlandi tilkynnti þetta á Fésbókarsíðu í gærkvöldi. Þar kemur fram að hann hafi verið úrskurðaður látinn skömmu eftir komuna á sjúkrahús í Reykjavík, en hann var fluttur þangað með þyrlu um fimm leytið í dag.
Maðurinn var bandarískur ferðamaður á sjötugsaldri, sem var að snorkla í Silfru ásamt fleirum úr fjölskyldu sinni í skipulagðri ferð. Tæpur mánuður er liðinn frá því að bandarískur ferðamaður lést í Silfru.
Að minnsta kosti tíu slys hafa orðið í Silfru á síðustu átta árum, samkvæmt umfjöllun Morgunblaðsins. Þar af hafa þrír látist við köfun, en í síðustu tveimur tilvikum voru ferðamennirnir að snorkla.