Stjórn Donalds Trumps Bandaríkjaforesta hefur krafist afsagnar allra þeirra 46 ríkissaksóknara sem skipaðir voru í embætti í átta ára valdatíð Baracks Obama. Það er dómsmálaráðuneyti Jeff Sessions sem stendur að ákvörðuninni, og hefur þegar komið því til skila að ríkissaksóknararnir segi tafarlaus af sér.
Í Bandaríkjunum er hefð fyrir því að háttsettir, pólitískt skipaðir embættismenn innan stjórnarráðsins og undirstofnanna stjórnvalda, séu beðnir að segja af sér í kjölfar mannaskipta í Hvíta húsinu. Þetta á meðal annars við um ríkissaksóknara en þeir eru 93 talsins.
Ákvörðunin kom þó verulega á óvart, að því er segir í New York Times, þar sem nær enginn aðdragandi var að henni, og fyrirvarinn fyrir skiptin því lítill. Þetta getur sett dómsmál í uppnám sem nú eru í gangi og hafa Demókratar í þinginu þegar komið þeim skilaboðum á framfæri.
Fólk sem er í forsvari fyrir ráðuneyti Sessions hefur hafnað þessu, og sagt að fólk verið skipað fljótt og skiptin muni ganga vel fyrir sig. Auk þess geti aðrir saksóknarar tekið við keflinu og klárað þau mál sem þarf að klára.
Óhætt er að segja að Sessions sé undir pressu eftir að hann var staðinn að ósannindum frammi fyrir þingnefnd í Bandaríkjunum, þar sem hann sagðist ekki hafa verið í samskiptum við Rússa. Gögn birtust síðar sem sýndu glögglega, að Sessions hafði verið í samskiptum við Rússa í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum, fyrst í júlí og síðan í september. Í bæði skiptin fundaði hann með Sergey Kislyak, sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum.
Óskað hefur verið eftir því í þinginu, að sérstök rannsókn fari fram á tengslum Sessions og fleiri, þar á meðal Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa, en hann var einnig staðinn að ósannindum, þegar koma að samskiptum við Rússa, og þurfti því að segja af sér.