Öll höft á almenning, fyrirtæki og lífeyrissjóði verða afnumin á þriðjudaginn. Fjármagnsflæði að og frá landinu verður gefið frjálst og hægt verður að fjárfesta erlendis án takmarkana. Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra á blaðamannafundi hans, Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra og Más Guðmundssonar seðlabankastjóra í dag.
Samhliða þessu var gert samkomulag við aflandskrónueigendur. Seðlabankinn mun kaupa stóran hluta aflandskrónueigna. Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra sagði frá því að tilboð til stærstu aflandskrónueigendanna hefði verið sent seint á föstudag og nú hafi um það bil helmingur þeirra sagst ætla að taka tilboðinu.
Seðlabankinn bauð þeim að kaupa krónur þeirra á 137,5 krónur á hverja evru, en í útboðinu sem Seðlabankinn hélt í júní í fyrra, og þessir eigendur tóku ekki þátt í, var það 190 krónur á hverja evru. 137,4 krónur er um 20% yfir skráðu gengi evrunnar síðastliðinn föstudag.
Þá er búið að skipa þriggja manna verkefnisstjórn til að endurskoða peninga- og gjaldmiðilsstefnu Íslands. Ásgeir Jónsson, Ásdís Kristjánsdóttir og Illugi Gunnarsson hafa verið valin í þá nefnd.
Á næstu mánuðum verða lög um gjaldeyrismál endurskoðuð, en nú verður reglum Seðlabankans breytt.
Aflandskrónueignir nema um 195 milljörðum króna, en munu við kaup Seðlabankans nú á eignunum verða um 105 milljarðar króna. Öllum aflandskrónueigendum verður boðið að eiga viðskipti við Seðlabankann á sama gengi og samkomulagið hljóðar upp á næstu tvær vikurnar. Væntingar standa því til þess að eftirstæð fjárhæð aflandskrónueigna geti lækkað enn frekar á næstu vikum. Þetta kom fram í máli Más Guðmundssonar seðlabankastjóra og í fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.
Kjarninn mun fjalla nánar um afnám hafta í dag og næstu daga.