Tryggingafélagið VÍS greiðir Lífsverki lífeyrissjóði eingreiðslu upp á 835 milljónir króna í sátt í dómsmáli sem lífeyrissjóðurinn höfðaði gegn VÍS og fyrrum stjórnendum sjóðsins. VÍS sjálft greiðir 15% af upphæðinni vegna endurtryggjenda, eða 129 milljónir króna.
Málið snýst um tvær fjárfestingar sem þáverandi stjórn og stjórnendur lífeyrissjóðsins tóku ákvarðanir um, í mars og september 2008, í svonefndum lánshæfistengdum skuldabréfum (e. credit linked notes), sem gefin voru út af svissneska bankanum UBS AG, Jersey Branch, en fjárfestingar þessar voru gerðar fyrir milligöngu Landsbanka Íslands.
Lífsverk byggði málið meðal annars á því að ákvarðanir fyrrum stjórnenda sjóðsins og umræddar fjárfestingar samkvæmt þeim hafi verið ólögmætar þar sem þær hafi stangast á við þær fjárfestingarheimildir sem lífeyrissjóðir njóta samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Lánshæfistengdu skuldabréfin hafi verið afleiðugerningar, en ekki skuldabréf, sem óheimilt hafi verið að eiga viðskipti með.
Stjórn Lífsverks fór fram á bætur í samræmi við gildandi stjórnendatryggingu milli aðilanna á þeim forsendum að um hefði verið að ræða fjárfestingar sem stönguðust á við fjárfestingarheimildirnar.
Í apríl í fyrra var VÍS dæmt til að greiða 852 milljónir króna auk vaxta og dráttarvaxta í Héraðsdómi Reykjavíkur. VÍS áfrýjaði og til stóð að málið yrði tekið fyrir á morgun í Hæstarétti. AF því verður hins vegar ekki því samkomulag náðist um eingreiðsluna.
Í tilkynningu frá Lífsverki er haft eftir Val Hreggviðssyni stjórnarformanni að ánægja ríki með samkomulagið áður en málið fór fyrir Hæstarétt með þeirri óvissu sem því hefði fylgt. Stjórnin telji þetta góða niðurstöðu fyrir sjóðsfélaga. „Vissulega gefum við eftir af okkar ítrustu kröfum en niðurstaðan samsvarar því að sjóðurinn fengi greitt sem svarar til eins tjónsatburðar, sem var að hámarki 500 milljónir króna, auk dráttarvaxta og kostnaðar. Þetta sýnir að það mat stjórnar var rétt að hagsmunum sjóðfélaga væri best gætt með því að láta reyna á bótaskyldu fyrir dómi.“