Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að þær ákvarðanir um afnám hafta og það samkomulag sem gert hefur verið við aflandskrónueigendur um kaup á krónum þeirra hafi ekkert með fyrirhugaða sölu á Arion banka að gera. Hann viti til þess að til standi að skrá Arion banka á markað og að hluti þeirra sjóða sem eigi bankann í dag hafi hug á að taka þátt í kaupum á hluta af þeim bréfum. Bjarni segist geta tekið undir það sjónarmið að það sé ekki skynsamlegt að leita að skammtímaeigendum að bönkunum en væntanlegir eigendur verði einfaldlega að uppfylla skilyrði laga og komast í gegnum „nálarauga“ Fjármálaeftirlitsins sem meti hæfi eigenda. Þetta kom fram í viðtali við Bjarna í Kastljósi í kvöld.
Helgi Seljan spurði Bjarna ítrekað hvort að hann óttaðist að þeir aflandskrónueigendur sem tóku þátt í aflandskrónuútboði Seðlabanka Íslands sumarið 2016, og seldu krónurnar sínar á genginu 190 gagnvart evru, myndu reyna að sækja bætur vegna þess hagnaðar sem þeir urðu af. Þeim aflandskrónueigendum sem neituðu að taka þátt í útboðinu býðst ný að selja krónurnar sínar á genginu 137,5 krónur fyrir hverja evru, eða á 38 prósent betri kjörum en voru í boði í útboðinu í júní 2016. Nú þegar hafa eigendur 90 milljarða króna tekið þessu tilboði en enn standa eftir 105 milljarðar króna í eigu þessa hóps, sem að mestu eru bandarískir vogunarsjóðir. Í mái 2016 voru samþykkt lög þess efnis að eignir þeirra yrðu settar inn á vaxtalita reikninga ef þeir myndu ekki ganga að skilmálum stjórnvalda, og selja á genginu 190 í útboðunum í júní 2016. Til viðbótar áttu þeir að „fara aftast í röðina“ þegar kæmi að haftalosun.
Bjarni sagðist ekki óttast slíkar kröfur. Engir fyrirvarar hafi verið í útboðunum í fyrra og um hafi verið að ræða frjáls viðskipti. Hann hafnaði einnig ásökunum um að verið væri að færa vogunarsjóðum mikinn ávinning með því að hleypa þeim út í stað þess að standa í lappirnar gagnvart þeim. Engin hafi séð styrkingu krónunnar fyrir og í henni liggi mesta virðisaukningin sem vogunarsjóðirnir séu að fá. Álagið sem lagt er ofan á skráð gengi er þó umtalsvert lægra nú en það var sumarið 2016. Þá var gengið sem var í boði 37 prósent hærra en skráð gengi en nú er það um 20 prósent.