Fjármagnseigendur sem áttu krónur og keyptu evrur í útboði Seðlabankans í vor á genginu 190 munu hugsanlega kanna rétt sinn nú þegar ríkið hefur ákveðið að semja við krónueigendur sem eftir sátu um að kaupa evrur á genginu 137,5.
Þetta segir Helgi Pétur Magnússon lögmaður sem hefur unnið fyrir krónueigendur, í viðtali við Fréttablaðið í dag. „Menn sem eiga tugi eða hundruð milljóna undir þeir hljóta að kanna þá stöðu. Maður getur í það minnsta ekki útilokað þann möguleika,“ segir Helgi Pétur í viðtali við Fréttablaðið. Hann segist búast við því að hann muni hafa samband við umbjóðendur sína og gera þeim grein fyrir stöðunni og kanna viðbrögð þeirra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að efnahags- og viðskiptanefnd hafi kallað eftir frekari upplýsingum til að greina hvernig landið liggur. „Við þurfum í fyrsta lagi að fá að vita hvort einhver sem tók þátt í útboðinu síðasta sumar hafi gert fyrirvara við það. Í öðru lagi þurfum við að vita hvort þeir einstaklingar eigi þá kröfu á ríkissjóð vegna þessa,“ segir Lilja í viðtali við Fréttablaðið.
Höft á almenning, fyrirtæki og lífeyrissjóði verða afnumin í dag. Fjármagnsflæði að og frá landinu verður að mestu frjálst og hægt verður að fjárfesta erlendis án takmarkana, en þó eftir þeim reglum sem Seðlabanki Íslands hefur birt. Samkvæmt þeim verður bankinn að staðfesta fjármagnshreyfingar og ýmsar fjárhagslegar athafnir fólks og fyrirtækja.