Bandaríski fjárfestingasjóðurinn Loomis Sayles hafnaði tilboði Seðlabankans um kaup á aflandskrónum. Þetta staðfestir talsmaður sjóðsins við Reuters og RÚV greinir frá. Þrír stórir sjóðir til viðbótar neituðu að tjá sig um málið við Reuters, Autonomy Capital, Eaton Vance og Discovery Capital Management.
Aflandskrónueigendur hafa tvær vikur til að ákveða hvort þeir ganga að tilboði Seðlabankans um kaup á aflandskrónum fyrir 137,5 krónur á evru. Tilboðið var sent á föstudaginn í síðustu viku og þegar tilkynnt var um afnám hafta á sunnudag kom fram að þegar hefðu eigendur 90 milljarða aflandskróna gengið að tilboðinu. Þá standa eftir 105 milljarðar króna.
Loomis Sayles var meðal þeirra sjóða sem óskuðu eftir fundi með íslenskum stjórnvöldum í New York á dögunum, eins og Markaðurinn greindi frá. Sjóðurinn á um 30 til 40 milljarða króna hér á landi.