United Silicon fær ekki sex mánaða frest til úrbóta á mengun sem berst frá kísilverksmiðju fyrirtækisins í Helguvík og öðrum frávikum frá starfsleyfi þess, líkt og fyrirtækið hafði óskað eftir. Þetta kemur fram í bréfi Umhverfisstofnunar til United Silicon, sem Kjarninn hefur undir höndum.
Því þarf að fara fram verkfræðileg úttekt á hönnun og rekstri verksmiðunnar, og á næstu vikum mun Umhverfisstofnun leita eftir tilboðum í slíka úttekt, en það verður gert á kostnað United Silicon. Þangað til niðurstaða liggur fyrir um þörfina á umbótum samkvæmt slíkri rannsókn má kísilverksmiðjan ekki starfa, nema reka einn ljósbogaofn.
Fyrirtækið hafði farið fram á að fá frestinn til að bæta úr frávikum og ganga frá úrbótum á mengunarvarnabúnaði og mengunarvörnum sem og orsök og upptök lyktarmengunar. Mikið hefur verið fjallað um mengun frá kísilverksmiðjunni í fjölmiðlum undanfarið.
Fyrirtækið sagði í svarbréfi sínu til Umhverfisstofnunar, þar sem óskað var eftir frestinum, að mengun og önnur frávik hafi fyrst og fremst verið vegna byrjunarörðugleika sem hafi valdið ófyrirséðum ofnstöðvunum. Fyrirtækið telur það ekki óalgengt þegar um jafn umfangsmikla starfsemi sé að ræða, og að Umhverfisstofnun sé að áforma of íþyngjandi úrræði. Því var farið fram á að hætt yrði við verkfræðilega úttekt og fyrirtækið fengi hálfs árs frest til að bæta úr.
Umhverfisstofnun segir að vegna umfangsmikilla og og endurtekinna rekstrarvandamála sé umfang eftirlits með verksmiðjunni fordæmalaust. Þá hafi rekstur verksmiðjunnar sérstöðu hvað varðar eðli, umfang framleiðslu og nálægð við íbúabyggð. Umhverfisstofnun telur því að sex mánaða frestur til úrbóta sé of langur tími, og „mikilvægt að nú þegar verði í varúðarskyni stigin markviss skref til að ná betri tökum á rekstri verksmiðju Sameinaðs Sílikons hf. hvað varðar mengunarvarnir.“