George Osborne, fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands, hefur verið ráðinn ritstjóri breska blaðsins London Evening Standard. Eigandi blaðsins, Evgeny Lebedev, greindi frá þessu í morgun.
Osborne hefur setið á þingi fyrir Íhaldsflokkinn frá árinu 2001 og var fjármálaráðherra í ríkisstjórn David Cameron þar til eftir Brexit-þjóðaratkvæðagreiðsluna í fyrra. Þá sagði David Cameron af sér sem forsætisráðherra og Theresa May vildi ekki hafa Osborne áfram sem fjármálaráðherra. Hann hefur því verið óbreyttur þingmaður og hyggst halda áfram á þingi þrátt fyrir ritstjórastöðuna.
„Þetta er mjög spennandi og krefjandi starf og ég er himinlifandi með að takast á við það,“ er haft eftir Osborne í fjölmiðlinum sem hann tekur við í byrjun maí. Hann sagði Evening Standard vera frábært blað. Hann sagðist stoltur af því að vera þingmaður Íhaldsflokksins, en sem ritstjóri myndi hann leiða sjálfstæða blaðamenn og eina markmiðið verði að gefa öllum íbúum London rödd.