Ekkert bendir til þess að njósnað hafi verið um Donald Trump, Bandaríkjaforseta, í Trump-turninum í New York samkvæmt rannsókn þingnefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings og hafa allar lykilstofnanir Bandaríkjanna, sem hefðu þurft að koma að hlerununum með einum eða öðrum hætti, neitað með öllu að hleranir hafi farið fram.
Á meðal þeirra fjölmörgu sem hafa borið þessar ásakanir til baka eru James Comey, yfirmaður FBI, John Brennan, fyrrverandi yfirmaður CIA, og David Nunes, formaður leyniþjónustunefndar Bandaríkjaþings.
Donald Trump hélt því fram á Twitter aðgangi sínum að Barack Obama hefði fyrirskipað hleranir í kerfi Trump turnsins í New York, þar sem hann er með skrifstofu.
Sean Spicer, fjölmiðlafulltrúi Trumps, sagði á fundi sínum með blaðamönnum gær að Obama hafi leitað út fyrir Bandaríkin til að njósna um Trump. Hann hafi fengið aðstoð bresku eftirlitsstofnunarinnar GCHQ.
Þessu hafa forsvarsmenn stofnunarinnar algjörlega hafnað og sagt áskanir Spicers rakalausa dellu. Ekkert sé til í því sem Spicer hafi sagt og stofnunin hafi ekki með neinum hætti komið að því að hlera síma Trumps í aðdraganda kosninga, að því er segir í umfjöllun BBC.