Alþingi ræðir nú um áform stjórnarmeirihlutans um að skipta upp innanríkisráðuneytinu á nýjan leik í tvö ráðuneyti, annars vegar dómsmálaráðuneyti og hins vegar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. Ráðuneytin voru sameinuð í eitt innanríkisráðuneyti eftir hrun, rétt eins og önnur ráðuneyti voru sameinuð.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra lagði fram þingsályktunartillögu um þetta í janúar, þegar ný ríkisstjórn tók við völdum. Ný ríkisstjórn fjölgaði ráðherrum og er með tvo ráðherra í innanríkisráðuneytinu, þau Sigríði Andersen dómsmálaráðherra og Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Það var gert með forsetaúrskurði, rétt eins og venja er þegar ráðuneytum er skipt. Tillagan snýst hins vegar um að ráðuneytinu sjálfu verði skipt í tvennt, og ráðuneytin verði því níu í stað átta. Verið er að ræða málið í seinni umræðu á Alþingi.
Sex umsagnir hafa borist stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vegna þessara breytinga, og allir sem taka afstöðu til þess fagna áformuðum breytingum. Dómstólaráð fagnar tillögunni og segist telja meðal annars í ljósi þeirra umfangsmiklu breytingar sem framundan séu í dómskerfinu að það sé mikilvægt að málaflokkurinn falli undir sérstakt fagráðuneyti dómsmála.
Landhelgisgæslan fagnar breytingunni og „tekur undir þau meginsjónarmið sem liggja að baki breytingunni, þ.e. að með stofnun dómsmálaráðuneytis verði hin pólitíska forysta markvissari, færi ráðuneytunum aukna sérþekkingu sem og yfirsýn.“
Lögreglustjórafélag Íslands styður einnig fyrirhugaða breytingu. „Félagið bindur vonir við að breytingin hafi í för með sér jákvæð áhrif á starfsemi nýrra ráðuneyta og telur jákvæða þá uppstokkun á málefnasviðum sem lagt er til í tillögu að þingsályktun.“
Samband íslenskra sveitarfélaga fagnar einnig tillögunni og styður hana eindregið. Sambandið segir málefni sveitarfélaga ekki hafa fengið nægilegt vægi í innanríkisráðuneytinu og bindur vonir við að breyting verði á því með uppskiptingu ráðuneytisins.
Vanreifað og snýst um jafnvægi milli flokka
Svandís Svavarsdóttir, fulltrúi VG í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, skilaði minnihlutaáliti um málið þar sem lagst er gegn því. Hún segist telja málið vanreifað, fyrir því liggi ekki faglegur rökstuðningur, verið sé að tvístra starfskröftum í ráðuneytum í stað þess að samþætta og samnýta, og að undirbúningi hafi verið verulega áfátt. Það hafi ekki verið lögð fram nein skýr efnisleg rök, og ekki hafi legið fyrir neitt mat á kostnaðinum við uppskiptinguna þegar tillagan var lögð fram. Það beri þess merki að um sé að ræða fyrst og fremst ráðstöfun sem snúist um jafnvægi milli flokka í myndun ríkisstjórnarinnar.
Samkvæmt kostnaðarmati sem gert var við vinnslu málsins var gert ráð fyrir allt að sjö nýjum stöðugildum við breytingarnar og kostnaði sem nemur um 120 milljónum króna á ári. Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar segir hins vegar í sínu meirihlutaáliti um málið að hann telji að auk eðlilegt upphafskostnaðar eigi breytingarnar að fela í sér kostnað vegna ráðningar ráðuneytisstjóra og ritara hans. Ekki sé verið að samþykkja frekari útgjaldaaukningu.