Íslendingar eru frekar andvígir því að íslenska ríkið selji hlut sinn í viðskiptabönkunum þremur. Mest er andstaðan við að ríkið selji hlut sinn í Landsbankanum, en 67 prósent landsmanna eru mótfallin því. Um helmingur (49 prósent) vill ekki að ríkið selji hlut sinn í Íslandsbanka og 46 prósent eru andvíg því að ríkið selji hlut sinn í Arion banka.
Þetta kemur fram í nýrri könnun á vegum Zenter rannsókna sem framkvæmd var daganna 1. til 16. mars. Könnunin var því gerð áður en tilkynnt var um kaup vogunarsjóða og Goldman Sachs á stórum hlut í Arion banka um liðna helgi.
Íslenska ríkið á 98,2 prósent í Landsbanka, allt hlutafé í Íslandsbanka og 13 prósent hlut í Arion banka.
Á milli 21-24 prósent landsmanna er hvorki hlynntur né andvigur sölu á hlut ríkisins í bönkunum þremur. Einungis 13 prósent vilja að ríkið selji hlut sinn í Landsbankanum, 27 prósent telja rétt að hluturinn í Íslandsbanka verði seldur og 30 prósent eru hlynntir sölu á 13 prósent hlutnum í Arion banka.
Samkvæmt eigendastefnu ríkisins er stefnt að því að selja allt hlutafé í Íslandsbanka, allan 13 prósent hlutinn í Arion banka og 60-66 prósent hlut í Landsbankanum.
Könnunin var netkönnun sem gerð var á meðal könnunarhóps Zenter rannsókna. Svarfjöldi var 1,176 einstaklingar og svarhlutfall 51 prósent. Gögnin voru vigtuð til að úrtakið myndi endurspegla álit þjóðarinnar. Tekið var tillit til kyns, aldurs og búsetu.