Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að enginn þriggja vogunarsjóða sem keyptu þriðjungshlut í Arion banka teljist kjölfestufjárfestar og að hver sem er eigi að geta keypt hluti í fjármálafyrirtæki sem skráð sé á markaði.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, spurði Bjarna í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag hvort kaup þriggja vogunarsjóða á eignarhlut í Arion banka séu til þess fallin að auka traust á fjármálakerfið á Íslandi. Þar að auki spurði hann hvort Bjarni teldi vogunarsjóði vera heppilega eigendur banka og hvort það sé siðferðislega verjandi að einn þessara þriggja sjóða sé flæktur í spillingarmáli.
Bjarni svaraði að það hefði lengi verið fyrirséð að nýir eigendur myndu leita nýrra fjárfesta. Hið jákvæða væri að „við fáum banka sem fái eitthvað framtíðareignarhald“ í fyrsta skipti frá hruni. Hann þvertók fyrir það að vera sérstaklega ánægður með einstaka eigendur bankans en bætti við að hlutabréfakaup fjármálafyrirtækja á markaði séu frjáls.
„Fjármálafyrirtæki eins og öll önnur fyrirtæki sem eru skráð á markað getur gengið kaupum og sölum og hver sem er getur keypt hlut í þeim.“ Bjarni bætti svo við að annað gildi þegar talað er um kjölfestufjárfesta, en hingað til teljist enginn þeirra vera það.
Þá vitnaði Sigurður Ingi í einn kaupendanna sem sagði að eignarhluturinn væri takmarkaður um 9,99 prósent til að tefja ekki söluferlið og að yfirvöld litu það jákvæðum augum. Sigurður Ingi spurði hvaða aðilar það væru sem litu það jákvæðum augum.
Bjarni sagðist ekki kannast við þessi orð en ítrekaði að það væri regluverk til staðar fyrir virka eigendur fjármálafyrirtækja. „Það gilda lög í landinu þegar talað er um kjölfestufjárfesta. Ég hef enga ástæðu til þess að ætla annað en að þar verði farið vel og vandlega yfir þessi mál.“