Hosni Mubarak, fyrrverandi forseti Egyptalands, hefur verið látinn laus eftir að hafa verið í haldi stjórnvalda í sex ár. Honum var steypt af stóli í febrúar 2011, í mótmælaöldunni sem oft er kölluð arabíska vorið.
Lögmaður Mubaraks staðfestir þetta við Reuters-fréttastofuna. Forsetinn fyrrverandi hafði verið á spítala í Kaíró en er nú á heimili sínu í Heliopolis, fínu hverfi í Kaíró. Forsetahöllin er einnig í Heliopolis, en þar réð Mubarak ríkjum frá 1981 þar til í febrúar 2011.
Mubarak var tekinn höndum í apríl 2011, tveimur mánuðum eftir að hafa látið af völdum, og hefur verið látinn dúsa í fangelsi og á hersjúkrahúsum síðan, undir strangri gæslu.
Auglýsing
Hinn 88 ára gamli Mubarak var sýknaður af síðustu ákærunum á hendur honum á síðustu vikum. Hann hafði verið sakaður um að hafa beitt forsetavaldi sínu til þess að láta myrða fólk í byltingunni árið 2011. Annars hefur hann verið kærður fyrir fjölda meintra glæpa, allt frá spillingu til morða.