„Við höfum ákveðið að draga frumvarpið til baka [...] Obamacare verður því áfram fyrir hendi,“ sagði Repúblikaninn og forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, Paul Ryan, á blaðamannafundi eftir að ljóst varð að ekki var stuðningur við frumvarp Donalds J. Trump Bandaríkjaforseta um heilbrigðistryggingar.
Trump óskaði eftir því að frumvarp hans vegna heilbrigðistrygginga yrði dregið til baka, skömmu áður en atkvæðagreiðsla um það átti að hefjast á bandaríska þinginu, en þá þegar virtist augljóst að frumvarpið yrði fellt.
Þetta er mikill og niðurlægjandi ósigur fyrir Bandaríkjaforseta, sem hefur lofað því ítrekað, að Obamacare verði aflagt og nýju og betra skipulagi - sem frumvarp hans fjallaði um - komið á.
Opinber yfirlýsing frá Hvíta húsinu á enn eftir birtast, en Trump hafði sett fulltrúum Repúblikana í fulltrúardeild þingsins afarkosti vegna frumvarpsins en það bar ekki árangur. Ekki var einhugur innan hans eigin flokks um að samþykkja frumvarpið.
Á Twitter svæði sínu sagði Trump í morgun, að eftir sjö ár af Obamacare væri nú loksins komin upp stund, þar sem væri hægt að afnema það kerfi. Þessi tilraun Trumps heppnaðist ekki.