Kolbrún Jóna Pétursdóttir, bæjarfulltrúi Beinnar leiðar í Reykjanesbæ, segir að í sínum huga þurfi að loka verksmiðju United Silicon í Helguvík þar til að starfsmenn hennar hafi náð tökum á öllum þeim vandræðum sem þar hafi komið upp. Búið sé að fara fram á fund með Umhverfisstofnun í vikunni og er vonast til að stofnunin fáist til að „grípa til ráðstafanna sem hugnast okkur bæjarbúum vel.“ Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu á Facebook síðu hennar. Bein leið myndar meirihluta í bæjarstjórn Reykjanesbæjar ásamt Samfylkingunni og Frjálsu afli.
Með færslunni deilir Kolbrún frétt RÚVfrá því í hádeginu þar sem haft er eftir Kristínu Ólafsdóttur, dósent í eiturefnafræðum við læknadeild Háskóla Íslands, sem segir fulla ástæðu fyrir bæjarbúa að hafa áhyggjur af því ef arseníkmengun fer yfir umhverfismörk. Í mati á umhverfisáhrifum fyrir kísilverksmiðjuna var gert ráð fyrir að mesti styrkur arseníks í andrúmslofti yrði 0,32 nanógrömm á rúmmetra. Nú mælist styrkur þess hins vegar tuttugufalt meiri og yfir umhverfismörkum.
Í frétt RÚV segir Kristín að arseník sé eitt af fáum efnum sem eru skilgreindir krabbameinsvaldar hjá Alþjóðakrabbameinsstofnuninni. Arseníkmengun í lofti valdi lungnakrabbameini og/eða krabbameini í húð.
Fengu ekki frest
Kjarninn greindi frá því um miðjan mars að United Silicon myndi ekki fá sex mánaða frest til úrbóta á mengun sem berst frá kísilverksmiðju fyrirtækisins í Helguvík og öðrum frávikum frá starfsleyfi þess, líkt og fyrirtækið hafði óskað eftir. Þetta kom fram í bréfi Umhverfisstofnunar til United Silicon, sem Kjarninn hefur undir höndum.
Því þurfi að fara fram verkfræðileg úttekt á hönnun og rekstri verksmiðjunnar, og Umhverfisstofnun ætlaði að leita eftir tilboðum í slíka úttekt, en það verður gert á kostnað United Silicon. Þangað til niðurstaða liggur fyrir um þörfina á umbótum samkvæmt slíkri rannsókn má kísilverksmiðjan ekki starfa, nema reka einn ljósbogaofn.
Fyrirtækið hafði farið fram á að fá frestinn til að bæta úr frávikum og ganga frá úrbótum á mengunarvarnabúnaði og mengunarvörnum sem og orsök og upptök lyktamengunar. Mikið hefur verið fjallað um mengun frá kísilverksmiðjunni í fjölmiðlum undanfarið.