Skoska þingið samþykkti í dag tillögu um að krefjast annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands. 69 þingmenn greiddu atkvæði með tillögunni en 59 gegn henni.
Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, sagði í kjölfar atkvæðagreiðslunnar á þinginu að nú sé það lýðræðislegur vilji að viðræður eigi að hefjast við stjórnvöld í London um aðra þjóðaraktævðagreiðslu. Almenningur eigi að fá þann valmöguleika þegar útgöngusamningur Bretlands úr Evrópusambandinu er ljós.
Sturgeon sagði jafnframt að það væri óverjandi og í raun ómögulegt fyrir stjórnvöld í London að reyna að standa í vegi fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði. „Þetta snýst fyrst og fremst um það að gefa skosku þjóðinni val um framtíð þessa lands.“
Skosk stjórnvöld muni því á næstu dögum, eftir að búið er að virkja 50. grein Lissabon-sáttmálans og hefja formlegt útgönguferli Bretlands úr ESB, óska eftir viðræðum við stjórnvöld í London.
David Mundell, ráðherra gagnvart Skotlandi, hefur hins vegar strax sagt að stjórnvöld í London muni ekki ræða við skosk stjórnvöld um þjóðaratkvæðagreiðslu nærri því strax. Það verði ekki á meðan verið sé að ganga frá útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og ekki heldur fyrr en að breytingartímunum sé lokið. Það gæti þýtt að engin þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin fyrr en eftir 2020.