Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um söluna á hlut í Búnaðarbankanum, árið 2003, kemur fram að takmarkaðar upplýsingar séu til um félagið félagið Dekhill Advisors, sem fékk hluta hagnaðarins af Hauck & Aufhäuser viðskiptunum.
Félagið fékk 46,5 milljónir dollara í sinn hlut, upphæð sem samsvarar um fjórum milljörðum króna í dag.
Nafn félagsins fannst í gegnum símagreiðslu en einu upplýsingarnar um það eru skráning um stofnsetningu á Bresku Jómfrúreyjum 25. júlí 2005 með númerinu 668854, að því er segir í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.
Samdægurs
Baksamningar um Welling & Partners voru undirritaðir sama dag og S-hópurinn keypti nær helmingshlut ríkisins í Búnaðarbankanum, eins og rakið er ítarlega í fréttaskýringum á vef Kjarnans í dag, þar sem vísað er til fyrrnefndar skýrslu.
Þeir samningar kváðu á um að félag í eigu Ólafs Ólafssonar skildi fá rúmlega helming hagnaðar félagsins í sinn hlut á móti tæplega helmingi hagnaðar sem rynni til annars aðila.
Ólafur sagði í yfirlýsingu fyrr í dag að þeir samningar hefðu einungis verið samningar milli tveggja einkaaðila.
Þegar upp var staðið var sá peningur færður inn á reikning félagsins Dekhill Advisors Ltd. Þrátt fyrir að Dekhill hafi fengið greiddar 46 milljónir dollara kemur það ekki við sögu í viðskiptafléttunni fyrr en eignir Welling & Partners eru greiddar út. Þá er greiðslan rakin til félagsins.
Viðskiptaflétta í leynd
Spjótin beinast að þessu huldufélagi og hver sé eigandi þess. Í skýrslu nefndarinnar segir, að samkvæmt gögnum og skjaladrögum, sem rannsóknarnefndin aflaði sér, þá komi nöfn Ágústs og Lýðs Guðmundssona, sem oft eru kenndir við Bakkavör, þar við sögu.
Samkvæmt gögnum og skjaladrögum átti félagið Jeff Agents Corp. að verða eigandi Welling & Partners með „viðskiptafléttu milli þeirra“ eins og það er orðað í skýrslunni. Rannsóknarnefndin vísar líka til tvennra skjaladraga um raunverulegt eignarhald Jeff Agents Corp. Þau eru þó „öll óundirrituð að hluta og því ófullkomin að formi til,“ segir í skýrslunni, en að skráðir eigendur í drögunum séu Lýður og Ágúst Guðmundssynir.
Þeir voru fyrir fall Kaupþings í hópi stærstu eigenda bankans í gegnum félagið Exista, sem fór með fjórðungshlut í bankanum.
Orðrétt segir í skýrslunni: „Þriðju samkomulagsdrögin bera á hinn bóginn með sér að vera milli annars vegar KV Associates S.A. og hins vegar tveggja nafngreindra íslenskra kaupsýslumanna, Lýðs Guð- mundssonar og Ágústs Guðmundssonar, og kveða á um að KV Associates S.A. stýri félaginu Jeff Agents fyrir raunverulega eigendur þess, sem tilgreindir eru þeir Ágúst og Lýður. Drögin bera dagsetninguna 29. janúar 2003 en eru á sama hátt og hin tvö fyrrnefndu aðeins undirrituð af hálfu KV Associates S.A., sem fyrr af Karim Van den Ende, en óundirrituð af hálfu hins tilgreinda gagnaðila, það er þeim Lýði og Ágústi Guðmundssonum sem raunverulegra eigenda Jeff Agents samkvæmt samkomulagsdrögunum.
Enginn þeirra sem nefndin tiltekur, að hafi komið að gerð baksamninga og blekkinga í tenslum við fyrrnefnd viðskipti með eignarhlut í Búnaðarbankanum, kannast við þetta félag. Ekki Bjarki Diego, ekki Hreiðar Már Sigurðsson, ekki Ólafur Ólafsson, ekki Sigurður Einarsson og ekki Magnús Guðmundsson. Ágúst og Lýður gera það ekki heldur, þrátt fyrir að nöfnin finnist í drögunum.
Þá nefna Steingrímur Kárason og Kristín Pétursdóttir, sem voru yfir áhættustýringu og fjárstýringu Kaupþings áður fyrr og á þeim tíma þegar viðskiptin voru framkvæmd, ekki félagið í sínum bréflegu svörum til nefndarinnar.