Ólafur Ólafsson sagði í vitnisburði sínum fyrir dómi, þar sem hann svaraði spurningum rannsóknarnefndar Alþingis um aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupunum á stórum hluta í Búnaðarbanka Íslands, að eftir því sem hann best vissi væru allar þær upplýsingar sem íslenska ríkinu voru veittar um kaupin, og kynntar voru í fjölmiðlum samhliða kaupum, hafi verið réttar og nákvæmar, að því er hann best vissi.
Gögn sem nefndin hefur undir höndum sýna þó með óyggjandi hætti fram á að svo er ekki. Ólafur var leiðandi í þeirri fléttu sem ofin var í kringum kaupin, samkvæmt niðurstöðum nefndarinnar. Í henni fólst að Hauck & Aufhäuser var aldrei raunverulegur eigandi að hlutnum, Kaupþing fjármagnaði viðskiptin en ekki þýski bankinn, Ólafur Ólafsson og líklega Kaupþing eða stjórnendur þess högnuðust um milljarða króna á fléttunni og Hauck & Aufhäuser var tryggt algjört skaðleysi.
Þá sagði Finnur Vilhjálmsson, starfsmaður nefndarinnar, á blaðamannafundi sem haldin var fyrr í dag: „Ólafur Ólafsson stýrði verkefninu fra A til Ö.“
Ætlaði ekki að svara getgátum fjölmiðla
Ólafur neitaði upphaflega að mæta til skýrslutöku vegna rannsóknarinnar. Eftir að dómstólar höfðu hafnað málatilbúnaði hans sem beitt var fyrir þeirri neitun mætti hann loks sem vitni 30. janúar 2017. Í skýrslunni er farið yfir vitnisburð Ólafs og þar rakið að eftir því sem hann vest vissi væru „allar þær upplýsingar sem íslenska ríkinu voru veittar á þessum tíma, eða annars sú aðkoma Hauck & Aufhäuser sem bæði kaupsamningurinn og fylgigögn hans kváðu á um, og kynnt voru í fjölmiðlum samhliða kaupunum, réttar og nákvæmar varðandi aðkomu Hauck & Aufhäuser.“
Ólafur sagðist hins vegar ekki muna hvort einhverjar ráðstafanir hefðu verið gerðar, t.d. með samningum, til að draga úr eða girða fyrir fjárhagslega áhættu Hauck & Aufhäuser af viðskiptunum. Þá kvaðst Ólafur ekki muna hvort einhverjir aðrir aðilar en þeir sem stóðu að kaupsamningnum við íslenska ríkið hefðu komið að kaupum S-hópsins, t.d. með samningum. Í skýrslunni er orðrétt haft eftir Ólafi: „„Hauck & Aufhäuser fjárfesti í Eglu hf. eða ehf., ég man ekki hvort það er. Öll gögn, allir pappírar, allar innborganir hlutafjár liggja fyrir. Allar fundargerðir sem þú hefur liggja fyrir. Fundarseta hans eða fulltrúa hans í stjórnum liggja fyrir, öll umboð hans til athafna innan við Eglu liggja fyrir og meira hef ég ekki nú ekkert um málið að segja. Ég, þú getur ekki ætlast til þess að ég sé hérna, 15 árum síðar, að svara getgátum fjölmiðla. Bara I‘m sorry.“
Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar kemur fram að aflandsfélag í eigu Ólafs hafi hagnast um marga milljarða króna vegna fléttunnar og að þeim ávinningi hafi verið ráðstafað í kaup á erlendum verðbréfum fyrir hönd hans eftir að hann var greiddur út snemma árs 2006.
Sagðist ekki hafa hugmynd um fjármögnun Kaupþings
Ólafur sagði enn fremur ekki hafa hugmynd um hvort Kaupþing hafi komið að fjármögnun á hlutnum sem fullyrt var að Hauck & Aufhäuser var að kaupa. Í skýrslunni kemur hins vegar mjög skýrt fram að Ólafur og hans nánustu samstarfsmenn, hópur innan Kaupþings og tveir aðilar innan Hauck & Aufhäuser sem hafi skipulagt og útfært þá fléttum sem ráðist var í í kringum kaupin. Aðspurður um hvort rétt væri að Hauck & Aufhäuser hefði tekið „fullan þátt í kaupunum á kjölfestuhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. í gegnum kaup sín í Eglu hf.“ svaraði Ólafur að þeir hefðu verið „að fullu hluthafar í Eglu hf.“ og hann hefði „ekki verið upplýstur um annað af þeim“.
Þá kvaðst Ólafur ekki geta varpað ljósi á hvort fullyrðingar Guðmundar Hjaltasonar, framkvæmdastjóra Eglu hf., í fjölmiðlum um að hann vissi ekki til þess að Hauck & Aufhäuser hefði verið „leppur fyrir aðra aðila“, væru réttar og nákvæmar. Gögn nefndarinnar sýna hins vegar mjög skýrt að hann var upplýstur um alla fleti málsins.
Gögn sýna að Ólafur var upplýstur
Í svarbréfi sem Ólafur sendi rannsóknarnefndinni 20. mars 2017 eftir að honum hafði verið gerð grein fyrir meginniðurstöðum hennar segist hann ekki hafa tekið þátt í viðræðum um gerð samninganna milli Hauck & Aufhäuser og Kaupþings og að enginn fulltrúi á hans vegum hefði verið aðili að þeim. Hann hefði enn fremur „ekkert innlegg“ haft „í samningaviðræðurnar“ og „ekki séð þá samninga sem samningsaðilar gengu frá sín á milli“. Af þeim sökum væri hann „ekki í aðstöðu til að svara spurningum um samninga Kaupþings og Hauck & Aufhäuser“.
Þessu hafnar nefndin með öllu. Í skýrslu hennar segir: „Telja verður að gögn rannsóknarnefndar sýni meðal annars svo að ekki verður um villst að Ólafur Ólafsson hafi ekki aðeins verið upplýstur um gerð baksamninganna heldur hafi hann einnig frá upphafi átt að njóta, og notið í reynd, fjárhagslegs ávinnings af þeim. Þá telur nefndin rétt að minna á að í tölvupósti Ralf Darpe til Ólafs Ólafssonar, dags. 17. desember [2002], sem sendur var með afriti á Michael Sautter og rakinn er í 5. kafla, var Ólafur spurður sérstaklega, í tilteknu samhengi sem nánar er rakið þar, hvort bóka ætti hótelherbergi fyrir „the Puffin“ eða „lundann“. Af gögnum rannsóknarnefndar, m.a. skjaladrögum aðila og samskiptum sem tengjast baksamningunum er ljóst að með viðurnefninu „Puffin“ var vísað til Kaupþings hf. eða þess verkefnis sem fólst í baksamningunum.“