Auðun Georg Ólafsson hefur verið ráðinn í stjórnunarstarf hjá Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins. Samkvæmt heimildum Kjarnans hefur hann verið kynntur fyrir hluta starfsfólks félagsins og er talið að hann muni gegna einhvers konar nýrri fréttastjórastöðu útvarpssviðs Árvakurs. Auðun Georg hefur undanfarið starfað sem ritstjóri Kópavogsblaðsins.
Tilkynnt var um það í október 2016 að Árvakur hefði keypt allan útvarpsrekstur Símans, það er útvarpsstöðvarnar K100 og Retro.
Auðun Georg var ráðinn í starf fréttastjóra Útvarps árið 2005. Ráðningin var afar umdeild, þar sem fimm aðrir umsækjendur um stöðuna voru metnir hæfari til að gegna henni að teknu tilliti til starfs- og stjórnunarreynslu og menntunar. Fréttamenn á Ríkisútvarpinu börðust sameinaðir sem einn gegn ráðningunni og nutu til þess stuðnings Blaðamannafélags Íslands.
Auðun Georg átti að hefja störf 1. apríl 2005. Þann sama dag fór hann í viðtal við fréttamann Útvarps og varð þar tvísaga um hvort hann hefði átt fund með Gunnlaugi Sævari Gunnlaugssyni, þáverandi formanni útvarpsráðs, daginn áður.
Sama dag, 1. apríl 2005, sendi Auðun Georg frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði, með tilliti til aðstæðna á fréttastofu Ríkisútvarpsins, þá sæi hann sér ekki fært að þiggja starf fréttastjóra og myndi ég því ekki skrifa undir ráðningarsamning.
Í yfirlýsingunni sagði m.a.: „Ég sótti um starfið á jafnræðisgrundvelli án þess að vera til þess hvattur og ekki í umboði eins eða neins, hvorki stjórnmálaafla né annarra. Þrátt fyrir að vegið hafi verið að persónu minni með afar ósanngjörnum hætti, mannorð mitt svert með röngum ásökunum, hreinum lygum haldið á lofti og mér allt að því hótað, ákvað ég engu að síður að mæta til starfa með opnum huga og gefa fréttamönnum á fréttastofu Ríkisútvarpsins tækifæri til að sýna að sanngirni, hlutleysi, réttlæti og fagleg vinnubrögð væru höfð að leiðarljósi. Í viðtali sem ég veitti fréttamanni Ríkisútvarpsins í dag í tilefni af því að ég hæfi störf var með lævíslegum hætti reynt að koma mér í vandræði. Það tókst, þar sem ég vildi ekki rjúfa trúnað. En fréttamaðurinn var ekki hlutlaus, hann var málsaðili, og honum tókst ekki að gera greinarmun þar á. Ég hlakkaði til að takast á við skemmtilegt og ögrandi starf á fréttastofu sem naut trausts og þekkt var fyrir málefnaleg og fagleg vinnubrögð. Það er með miklum trega sem ég lýsi yfir að væntingar mínar voru á misskilningi byggðar.“
Gunnlaugur Sævar er í dag stjórnarformaður Ísfélags Vestmannaeyja, en eigendur þess eru stærstu hluthafar Árvakurs. Sigurbjörn Magnússon, stjórnarformaður Árvakurs, situr líka í stjórn Ísfélagsins.