Breytingar hafa orðið á eignarhaldi í Þórsmörk ehf., sem er eigandi Árvakurs hf., útgefanda Morgunblaðsins, mbl.is og fleiri miðla. Samherji hefur selt allan hlut sinn til Eyþórs Arnalds.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu, og á mbl.is, í dag.
Samherji átti 18,43% hlut í gegnum félagið Kattarnef ehf. og fer með þessu úr hluthafahópnum. Að auki kaupir Eyþór 6,14% hlut Síldarvinnslunnar hf. og 2,05% hlut Vísis hf., alls 26,62%, að því er segir í frétt Morgunblaðsins.
Samanlagt á Eyþór Arnalds nú 26,6 prósent í Árvakri. Í tilkynningu segir Eyþór að hann telji framtíðina í fjölmiðlun felast í samspili nýmiðlunar og hefðbundinnar útgáfu dagblaða og rótgróinna miðla.
„Fjölmiðlar og mikilvægi öflugrar sjálfstæðrar fjölmiðlunar hafa lengi verið mér sérstakt hugðarefni. Mér er það því fagnaðarefni að koma með þessum hætti að Árvakri, útgefanda Morgunblaðsins, eins elsta dagblaðs landsins sem gefið hefur verið óslitið út síðan 1913, og fleiri miðla. Ég tel framtíðina felast í samspili hefðbundinna miðla á borð við dagblöð og svo nýmiðlunar, svo sem á netinu. Í hafsjó misáreiðanlegra fregna sem beinast að fólki úr öllum áttum verður gildi traustra og ábyggilegra fjölmiðla skýrara og starfsemi þeirra mikilvægari upplýstri umræðu í lýðræðissamfélagi. Með sína fjölbreyttu útgáfustarfsemi er Árvakur í kjörstöðu til að nýta styrk hvers og eins miðils, bæði til afþreyingar og miðlunar ábyggilegra frétta og ítarlegra umfjallana. Árvakur er útgáfufélag með langa sögu og á framtíðina fyrir sér,“ segir Eyþór.
Samkvæmt lista fjölmiðlanefndar yfir hluthafa Árvakurs, er stærstu eigendur félagsins nú, Ísfélag Vestmannaeyja, með 13,43 prósent hlut, og Hlynur A ehf., með 16,3 prósent hlut. Félögin eru bæði í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur að stærstum hluta.