Frítekjumörk fyrir húsnæðisbætur hafa verið hækkuð með reglugerð frá Þorsteini Víglundssyni, félags- og jafnréttismálaráðherra. Reglugerðin er afturvirk og gildir frá upphafi þessa árs. Greiðslur húsnæðisbóta verða því endurreiknaðar og leigjendur sem eiga rétt á meiru fá mismuninn fyrir lok þessa mánaðar.
Misræmi varð á milli framfærsluviðmiðs almannatrygginga og frítekjumarkanna í húsnæðisbótakerfinu, þegar framfærsluviðmiðið hækkaði um 13,6 prósent um áramótin. Frítekjumörkin fyrir húsnæðisbætur miðuðust við þær upphæðir sem voru í gildi þegar lögin um húsnæðisbætur voru samþykkt um mitt ár í fyrra.
Með breytingunni verður frítekjumark þess sem býr einn 3.373.000 krónur en var 3.100.000 krónur. Ef tveir eru í heimili verður frítekjumarkið 4.461.064 krónur, en var 4.100.000.
Þorsteinn hafði áður tilkynnt að reglugerðin væri í smíðum þegar Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG, hafði meðal annars spurt ráðherrann um málið á Alþingi. Steinunn Þóra benti á að öryrkjar sem búa einir og hafa einungis tekjur frá Tryggingastofnun höfðu ekki lengur rétt á fullum húsnæðisbótum eftir að framfærsluviðmiðið hækkaði en frítekjumarkið ekki. Þetta ætti við um fleiri hópa með lágar ráðstöfunartekjur, ekki bara öryrkja.
„Það gefur auga leið og er eðlilegt að vænta þess að einstaklingur á lágmarksbótum sem býr einn njóti fullra húsnæðisbóta. Þannig að þessu munum við breyta,“ sagði Þorsteinn í þinginu í mars.