Kvika banki vill ekki upplýsa um hverjir eigi B-hlutabréf í bankanum. Það kemur fram í svari Sigurðar Atla Jónssonar, forstjóra bankans, við fyrirspurn Kjarnans. Ákveðið var á síðasta aðalfundi Kviku að B-hluthafar, sem samkvæmt upplýsingum Kjarnans eru að mestu starfsmenn bankans, myndu fá 525 milljónir króna í arð vegna síðasta árs. A-hluthafar fá hins vegar enga arðgreiðslu.
Sigurður Atli segir í svari við fyrirspurn Kjarnans að allar upplýsingar sem bankanum sé „skylt og heimilt að veita um hluthafa bankans er að finna á heimasíðu hans; kvika.is. Þar er að finna lista yfir alla hluthafa sem eiga meira en eitt prósent af hlutafé og upplýsingar um eigendur í þeim tilvikum þar sem hluthafinn er lögaðili.“ Þegar fyrirspurn Kjarnans um hverjir væru B-hluthafar í bankanum var ítrekuð sagði Sigurður Atli að Kvika gæti ekki veitt þær upplýsingar.
Á heimasíðu Kviku eru einungis veittar upplýsingar um A-hluthafa. Þar er hægt að sjá hverjir eiga rúmlega 90 prósent A-hlutabréfa í bankanum. Tveir stærstu eigendurnir eru annars vegar VÍS (21,83 prósent) og hins vegar Lífeyrissjóður verslunarmanna (9,53 prósent). Þar á eftir koma stórir einstaklingsfjárfestar. Á meðal þeirra er félagið K2B ehf., sem er fjórði stærsti hluthafi bankans með átta prósent hlut. Það félag er í 100 prósent eigu Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur, stjórnarformanns VÍS, sem er líkt og áður sagði langstærsti eigandi Kviku. Engar upplýsingar eru hins vegar á síðunni um B-hluthafa bankans.
Arðgreiðslur höfðu áhrif á að samrunaferli var hætt
Á síðari hluta ársins 2016 var tilkynnt um yfirvofandi samruna Kviku við fjármálafyrirtækið Virðingu. Skrifað var undir viljayfirlýsingu þess efnis 28. nóvember í fyrra. Í aðdraganda sameiningar átti að lækka eigið fé Kviku um 600 milljónir króna og greiða lækkunina til hluthafa bankans. Hluthafar Kviku áttu eftir samruna að eiga 70 prósent hlut í sameinuðu félagi og hluthafar Virðingar 30 prósent hlut. Þann 28. mars síðastliðinn var tilkynnt um að stjórnir Virðingar og Kviku banka hefðu tekið sameiginlega ákvörðun um að slíta viðræðum um sameiningu félaganna.
Kristín Pétursdóttir, stjórnarformaður Virðingar, sagði við RÚV að arðgreiðslurnar til B-hluthafa Kviku, hafi haft áhrif á ákvörðunina um að slíta samrunaferlinu, en þó ekki úrslitaáhrif.
Fjármálaeftirlitið kannar hvort arður sé kaupauki
RÚV greindi svo frá því á þriðjudag að Fjármálaeftirlitið væri að kanna hvort tilteknar arðgreiðslur úr fjármálafyrirtækjum væru í raun kaupaukar, en samkvæmt lögum eru kaupaukar til starfsmanna fjármálafyrirtækja verulega takmarkaðir. Sem dæmi má nefna að Kvika mætti ekki greiða starfsmönnum sínum 525 milljónir króna í kaupauka samkvæmt þeim lögum enda takmarka þau kaupaukagreiðslur við það að vera fjórðungur af árstekjum hvers starfsmanns. Sigurður Atli hefur neitað því opinberlega að arðgreiðslur til B-hluthafa, sem eru aðallega starfsmenn bankans, sé leið til að komast fram hjá lögum sem takmarka kaupauka.
Í svari sínu við fyrirspurn RÚV staðfesti Fjármálaeftirlitið að tekið hafi verið til skoðunar hvort sérstakar aðstæður valdi því að arðgreiðslur til ákveðinna hluthafaflokka í tilteknum fjármálafyrirtækjum hafi falið í sér kaupauka.