Eldflaugaskot Norður-Kóreu halda áfram að ögra Japan, Suður-Kóreu og Bandaríkjunum. Í gærkvöldi lentu eldflaugar í Japanshafi sem skotið var frá hafnarborginni Sinpo.
Samkvæmt tilkynningu frá varnarmálaráðuneyti Suður-Kóreu þá liggur ekki fyrir hvernig skeytum var skotið á loft, en á undanförnum mánuðum hefur tilraunaskotum Norður-Kóreu fjölgað jafnt og þétt. Leiðtogi landsins, Kim Jong-Un, hefur átt í hótunum við Bandaríkin, Suður-Kóreu og Japan og lætur sér fátt um finnast þó eldflauga- og kjarnorkutilraunir Norður-Kóreu séu fordæmdar.
Framundan er fundur Donald Trump Bandríkjaforseta og Xi Jinping forseta Kína, og er talið öruggt að aðalumræðuefni fundarins verði ógnin sem stafar frá Norður-Kóreu.
Fundurinn fer fram á setri Trumps í Flórída, Mara-a-Lago.
Trump er búinn að lýs því yfir að Bandaríkin muni grípa til aðgerða gegn Norður-Kóreu að eigin frumkvæði, ef Kínverjar grípi ekki í taumana og stöðvi Norður-Kóreumenn í kjarnorkutilraunum sína. Kínverjar verði að sýna skýrt að þeir samþykki ekki framferði Norður-Kóreu, annars muni Bandaríkin taka málin í sínar hendur.