Donald J. Trump Bandaríkjaforseti segir að efnavopnaárás í Sýrlandi í síðustu viku, þar sem 72 óbreyttir borgarar féllu og þar af í það minnsta 20 börn, hefði breytt skoðun hans á málefnum Sýrlands. Árásin væri hrollvekjandi og það væri hrikalegt að horfa upp á dauða „saklausra barna, lítilla barna“ í myndskeiðum af vettvangi. Hann sagði afstöðu sína gagnvart Assad Sýrlandsforseta breytta, en fram að þessu hefur hann sagt að ekki væri ástæða til að aðhafast gagnvart Assad.
Trump sagði að árásin hefði á margvíslega vegu „farið yfir strikið“ og hún yrði ekki liðin. Hann sagði að nú þegar hefði verið brugðist við henni, en hann sagðist enn fremur ekki geta úttalað sig um til hvaða aðgerða verði gripið.
Öll spjóta standa nú á Assad en nær öruggt er talið, samkvæmt umfjöllun fjölmiðla, að stjórnarher Sýrlands, sem lítur boðvaldi forsetans, hafi beitt efnavopnunum. Hann nýtur stuðnings Rússa, sem hafa stutt herinn í aðgerðum sínum gegn uppreisnarmönnum og ISIS.
Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Sameinuðu þjóðunum, sagði árásina algjörlega ólíðandi, og beindi spjótum sínum að Assad og Rússum, undir stjórn Vladímir Pútín, forseta. „Hversu mörg börn þurfa að láta lífið áður en Rússar fara að láta sig málið varða?“ sagði Haley þegar hún ávarpaði fulltrúa aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna. Hún sagði að öllum steinum yrði velt við, til að greina hvað hefði nákvæmlega gerst. Ekkert annað kæmi til greina en samstaða um að binda enda á hörmungarnar í Sýrlandi.