Makrílkvóti íslenskra fiskiskipa nemur 168.464 lestum árið 2017. Þetta kemur fram í nýrri reglugerð atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, sem vitnað er til á 200 mílum, sérvefs Morgunblaðsins um sjávarútveg, og nemur aukningin um 20 þúsund tonnum.
Heldarverðmæti makrílafla árið 2015 nam um 12,7 milljörðum króna, samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands.
Um er að ræða talsverða aukningu frá síðasta ári, þegar 147.824 lestir voru leyfðar til veiða.
Kvótinn nam 172.964 lestum árið 2015, og var þá aukning um rúmlega fimm þúsund tonn frá árinu áður, að því er segir á 200 mílum.
Fram kemur einnig að Fiskistofa muni auglýsa eftir umsóknum um makrílveiðar 10. apríl næstkomandi. Viðmiðun leyfilegs heildarafla skuli þá ráðstafað til skipa sem stunduðu makrílveiðar á árunum 2007, 2008 og 2009.
Auk þess segir að skylt sé að ráðstafa að minnsta kosti 70% af makrílafla einstakra skipa til vinnslu á árinu 2017. Fiskistofa skuli þá fylgjast með hvort skilyrði um vinnsluskyldu hafi verið uppfyllt við lok vertíðar, segir í reglugerðinni.