Bandaríkjaher hefur hafið loftárásir á valin skotmörk í Sýrlandi en um 50 Tomahawk flugskeytum var skotið á flugvelli, eldsneytisbirgðir og fleiri hernaðarlega mikilvæg skotmörk, að því er segir á vef New York Times og breska ríkisútvarpsins BBC.
Árásirnar eru sagðar svar við efnavopnaárás á óbreytta borgara í Sýrlandi í síðustu viku, en í henni dóu í það minnsta 72 óbreyttir borgarar, þar á meðal 20 börn. Staðfestar upplýsingar liggja þó ekki fyrir enn, þar sem fólks er enn saknað eftir árásirnar.
Flugskeytin lentu meðal annars á skotpalli á Shayrat flugvellinum, nærri borginni Homs, en talið er að efnavopnunum hafi verið skotið þaðan, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt að árásin í Sýrlandi hafi breytt viðhorfi hans til stöðu mála í Sýrlandi, og segir hann framferði stjórnarhers Sýrlands, undir stjórn Assads forseta, algjörlega ólíðandi. Mestu bandamenn Sýrlandshers hafa verið Rússar.
Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, lét hafa eftir sér þegar hún ávarpaði fulltrúa aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna, að nú væri mælirinn fullur og ekki væri hægt að bíða lengur með aðgerðir gegn Sýrlandsher Assads. „Hversu mörg börn þurfa að deyja áður en Rússar finna til ábyrgðar?“ sagði Haley.
Rex Tillerson, utanríkisráðherra, lét hafa eftir sér fyrr í dag að Assads hefði ekkert hlutverk í framtíðinni í Sýrlandi. Eru þessi orð sögð endurspegla þá stefnubreytingu sem orðið hefur í stefnu Trumps þegar kemur að Rússum og Sýrlandi, á síðustu dögum.