Jafn margar konur og karlar sitja nú í stjórn Samtaka iðnaðarins, í fyrsta skipti í sögu samtakanna. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá samtökunum.
Eyjólfur Árni Rafnsson, sem er nýr formaður Samtaka atvinnulífsins, var varaformaður Samtaka iðnaðarins en hefur nú sagt sig úr stjórninni. Bergþóra Þorkelsdóttir hjá ÍSAM kemur inn í hans stað og þar með eru fimm konur og fimm karlar í stjórninni.
Það eru þau Ragnar Guðmundsson – Norðurál, Guðrún Jónsdóttir – Héðinn, Katrín Pétursdóttir – Lýsi, Árni Sigurjónsson – Marel, Agnes Ósk Guðjónsdóttir – GK snyrtistofa, formaður SI Guðrún Hafsteinsdóttir – Kjörís, Bergþóra Þorkelsdóttir – ÍSAM, Sigurður R. Ragnarsson – ÍAV, Egill Jónsson – Össur og Lárus Andri Jónsson – Rafþjónustan.
„Ég er stolt af því að félagsmenn SI hafi á undanförnum árum hægt og bítandi aukið hlut kvenna í stjórninni án utanaðkomandi þrýstings. Því er ekki að neita að SI eru karllæg samtök þar sem mikill meirihluti félagsmanna eru karlkyns. Í ljósi þess er sérstaklega ánægjulegt að upplifa að hér störfum við öll sem eitt óháð kyni íslenskum iðnaði til framdráttar. Jafnréttismál eru okkur mikilvæg og við gætum að því í öllum okkar störfum. Félagsmenn SI eru mjög meðvitaðir um að við verðum að nýta hæfasta fólkið og allan þann mannafla sem við náum í. Því höfum við að undanförnu verið að hvetja stúlkur til að horfa til iðnnáms og gera iðn að ævistarfi sínu. Í íslenskum iðnfyrirtækjum er urmull spennandi starfa sem henta báðum kynjum,“ er haft eftir Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formanni Samtaka iðnaðarins, í tilkynningunni.