„Allar siðaðar þjóðir þurfa að taka höndum saman um að binda endi á blóðbaðið í Sýrlandi.“ Þetta sagði Donald Trump, þegar hann svaraði fyrir aðgerðir Bandaríkjahers gegn stjórnarher Sýrlands, en 59 flugskeytum var skotið af herskipum Bandaríkjanna á valin skotmörk, meðal annars á Shayrat flugvellinum við borgina Homs, en talið er að efnavopnum, sem drápu hið minnsta 80 óbreytta borgara í síðustu viku og þar á meðal meira en 20 börn, hafi verið skotið þaðan.
Trump sagði á blaðamannafundi, þar sem hann var með alla helstu ráðgjafa sína sér við hlið, að fyrri tilraunir til að draga úr blóðbaðinu í Sýrlandi hefðu ekki gengið nægilega vel, en nú væri nóg komið. Nú þyrftu Bandaríkin og bandalagsþjóðir þeirra að taka saman höndum. Borgarastyrjöldin í landinu hefði magnað upp flóttamannavandann og það þyrfti að binda enda á blóðbaðið.
Áður en til flugskeytaárásanna kom lét Trump Rússa vita af því sem stæði til, að því er fram kemur í fréttum New York Times. Rússar hafa stutt stjórnarher Sýrlands undir stjórn Assads forseta.
Aðgerðir Bandaríkjanna fóru fram á sama tíma og opinber heimsókn Xi Jinping, forseta Kína, stendur yfir í Bandaríkjunum.
Vladímir Pútín forseti Rússlands segir í yfirlýsingu, sem vitnað er til á vef Wall Street Journal, að hann þessar aðgerðir Bandaríkjanna væru til þess fallnar að skaða samband Rússlands og Bandaríkjanna, og að þessar aðgerðir væru auk þess ekki í takt við alþjóðlegar skuldbindingar. Þarna væri ein þjóð að gera árás á aðra, í órétti, og þetta myndi hafa afleiðingar fyrir trúverðugleika samstarfs ríkja þegar það kæmi að varnarmálum.