Umsjónarmaður með forsetabústaðnum á Bessastöðum fær 7,5 milljónir króna í bætur samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Dómurinn komst að þeirri niðurstöður að maðurinn hefði verið hlunnfarinn um þessa upphæð í laun á meðan hann vann á Bessastöðum.
RÚV greindi frá þessu í morgun, en dómurinn hefur ekki verið birtur opinberlega þrátt fyrir að hafa verið kveðinn upp á þriðjudag.
Maðurinn þurfti að vera til staðar á Bessastöðum allan sólarhringinn í rúmlega fjögur og hálft ár, nema þegar hann fékk vaktafrí aðra hverja helgi. Ofan á vinnuskyldu sína sem var um 250 klukkutímar á mánuði var hann í raun stanslaust á bakvakt, en fékk hins vegar aldrei greitt fyrir það.
Samkvæmt dómnum gekk maðurinn í mjög mörg störf á Bessastöðum meðan hann vann þar á árunum 2010 til 2014. Hann hafi sinnt almennri vörslu, eftirliti, umsjón með húsakosti og lóð, auk tækni- og öryggismála. Hann sagði í stefnu sinni á hendur ríkinu að hann hafi í raun verið fastur á Bessastöðum, en það hafi verið þvert á það sem honum var sagt þegar hann réði sig til starfa í upphafi ársins 2010. Þá hafi honum verið sagt að hann þyrfti stundum að vera á bakvakt en sú kvöð yrði ekki íþyngjandi. Hann þyrfti að hafa náttstað á Bessastöðum en hefði fullt ferðafrelsi innan höfuðborgarsvæðisins.
Hann segir hins vegar að bakvaktirnar hafi íþyngt honum mjög og að vinnuskyldu hans hafi aldrei lokið. Hann hafi þurft að vera á Bessastöðum allan sólarhringinn nema þegar hann var í fríi. Auk þess hafi hann þurft að hlaupa í skarðið fyrir bílstjóra forsetans.
Íslenska ríkið, fyrir hönd forsetaembættisins, bar því meðal annars við að miklu minna hefði verið að gera hjá manninum þegar forsetinn, sem þá var Ólafur Ragnar Grímsson, var í útlöndum. Það hefði hann verið upp undir fjóra mánuði á ári þegar mest var. Hann hafi einnig verið með hærri laun en forveri hans og hann hafi getað stundað háskólanám með vinnu. Þetta taldi Héraðsdómur Reykjavíkur ekki skipta máli, heldur hefði maðurinn verið á bakvakt allan þennan tíma og ætti að fá greidd laun fyrir það.