Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, Akureyringur og arkitekt, segir næsta víst að flugvöllurinn í Vatnsmýri muni hverfa þaðan fyrr eða síðar og að gera þurfi áætlanir um hvernig hann eigi að fara. Ekki sé hægt að leyfa byggðinni að þrýsta flugvellinum út án þess að búið sé að undirbúa framhaldið.
Umræðan um flugvallarmálin hefur á undanförnu færst frá því að snúast eingöngu um veru flugvallarins í Vatnsmýri og yfir í aðrar hugsanlegar lausnir við þeim vanda sem við blasir. Logi segist hafa sjálfur tekið eftir þessari breytingu á umræðunni.
„Ég geng svo langt að segja að þeir sem vilja ekki neitt nema Vatnsmýrina eða dauða, þeir beri á endanum ábyrgð á því þegar þessi þjónusta skerðist,“ segir Logi Már. „Vegna þess að ef að flugvöllurinn fer til Keflavíkur – vegna þess að hann fer fyrr eða síðar – án þess að það sé búið að gera einhverjar úrbætur á samgöngum þar á milli þá erum við í hryllilegri stöðu. Þá gætu samgöngur með innanlandsflugi lagst af.“
Logi Már var gestur Aðfararinnar, þátts um skipulagsmál í Hlaðvarpi Kjarnans í gær. Hann ræddi skipulagsmál á Akureyri og umræðuna um skipulagsmál og landsbyggðina í þættinum í tilefni þess að skipulagsyfirvöld á Akureyri lögðu fram nýtt aðalskipulag á dögunum þar sem áhersla er lögð á aukna þéttingu byggðar í bænum. Hægt er að hlusta á þáttinn hér á vefnum.
Logi Már hefur áralanga reynslu í skipulagsmálum á Akureyri og bendir á að þrátt fyrir smæð sína, þarf höfuðstaður Norðurlands að fást við sömu áskoranir um samgöngur og þéttingu byggðar eins og flestar aðrar borgir í dag.
„Það er enn þá þannig,“ segir Logi Már þegar hann er spurður hvort Akureyringar séu ekki flestir mótfallnir því að Reykjavíkurflugvöllur hverfi úr Vatnsmýrinni.
Um flugvallarmálið segist hann vilja fá það besta fyrir landsbyggðina og Reykjavík. Þeir hagsmunir liggi ekki með flugvelli í Vatnsmýrinni. „Ég er þeirrar skoðunar að það verði að horfa til beggja aðila. Við getum fundið lausn sem er bæði betri fyrir landsbyggðarfólk og höfuðborgina, það er að segja að borgin fái að byggjast upp á skynsamlegan hátt en að við á landsbyggðinni höfum líka góðan og greiðan aðgang inn á höfuðborgarsvæðið.“
Logi Már bendir á að hér sé um tæknilega lausn að ræða. „Stjórnmálamenn eiga að skilgreina aðgengi, tíðni, verð og annað. Svo geta skipulagsfræðingar og verkfræðingar og arkitektar fundið lausnina. Þannig að ég held að það yrði betra fyrir okkur að fá flugvöll, kannski Hafnarfirði – í Hvassahrauninu – sem gæti þá tengst millilandafluginu líka. Þá fengjum við fleiri ferðamenn norður líka þannig.“
„Það hafa allir aðilar í þessu máli sömu hagsmuni og þeir liggja, held ég, einhvers staðar í mjög skömmu nágrenni við Reykjavík. Flugvellir – eins og aðrir hlutir – breytast og stækka og þurfa meira pláss. Þetta svæði þarna verður á endanum eins og ef ég færi að reyna að troða mér í fermingarfötin.“