Páll Valur Björnsson, fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar, er hættur í flokknum. Hann kynnti ákvörðun sína fyrir félagsmönnum í gær. Frá þessu er greint á vefmiðlinum Miðjunni.
Þar segir að Páll Valur hafi talið til nokkur atriði sem urðu til þess að hann ákvað að hætta. Honum þætti flokkurinn hafa gefið alltof mikið eftir í Evrópumálum, auðlinda- og umhverfismálum og málum sem snúast um stöðu barna.
Páll Valur var í framboði fyrir Bjarta framtíð fyrir síðustu þingkosningar og leiddi flokkinn í Suðurkjördæmi, en náði ekki kjöri. Hann var auk þess stjórnarmaður í flokknum.
Hann gagnrýndi stjórnarmyndunarviðræður Bjartrar framtíðar við Viðreisn og Sjálfstæðisflokkinn harðlega strax í nóvember 2016, þegar fyrsta umferð þeirra stóð yfir. Þá sagðist hann telja að Björt framtíð ætti enga samleið með Sjálfstæðisflokknum. Hann hefði átt að vera síðasti kostur í stjórnarmyndunarviðræðum þar sem formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, sé á móti kerfisbreytingum. „Það var kosið út af Panamaskjölunum og þar var Bjarni,“ sagði Páll Valur í viðtali við Fréttablaðið 14. nóvember 2016. Ekki varð að myndun ríkisstjórnar í þessum viðræðum.
Björt framtíð tók þó síðar aftur upp slíkar viðræður við sömu flokka og náðist að lokum saman um myndun nýrrar ríkisstjórnar í janúar 2017. Rúmur fjórðungur stjórnar Bjartrar framtíðar greiddi atkvæði gegn stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
Af stuðningsmönnum stjórnarflokkanna eru kjósendur Bjartrar framtíðar óánægðastir með stjórnarsamstarfið og stjórnarsáttmálann sem það byggir á. Í könnun Gallup frá því í byrjun mars kom í ljós að einungis þriðjungur kjósenda flokksins væri ánægður með ríkisstjórnina, 45 prósent sögðust ekki hafa neina sérstaka skoðun á henni og 22 prósent voru óánægð. Til samanburðar voru 57 prósent kjósenda Viðreisnar og 75 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks ánægðir með ríkisstjórnina.
Fylgi Bjartrar framtíðar mældist 6,0 prósent í síðustu könnun Gallup, sem birt var í byrjun apríl. Í nýjustu könnun MMR mælist það 5,0 prósent. Þar mælist stuðningur við ríkisstjórnina líka afar lítill, eða 34,5 prósent.