Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og fyrrverandi forstjóri olíurisands Exxon Mobile, segir að Rússar beri mikla ábyrgð á efnavopnaárásinni í Sýrlandi, sem kostaði yfir 80 mannslíf, og þar á meðal 20 börn. Bandaríkin svöruðu árásinni með leiftursnöggri breytingu á utanríkisstefnu sinni, og réðust gegn stjórnarher Sýrlands með flugskeytaárás.
Samtals var 59 Tomahawk flugskeytum skotið á valin skotmörk í Sýrlandi, þar á meðal á Shaytar flugvöllinn í Homs, þar sem bandarísk stjórnvöld segja að efnavopnunum hafi verið skotið á loft af stjórnarher Sýrland undir forystu Assad forseta.
Í viðtali við CBS Face The Nation sagði Tillerson að engin gögn bentu til þess að Rússar hefðu átt aðild að efnavopnaárásinni. Hins vegar hefðu Rússar átt að tryggja efnavopnaafvopnum Sýrlands, eins og þrýst hefði verið á um, meðal annars af hálfu Sameinuðu þjóðanna. Þetta hefði ekki verið gert, og það væri alvarlegt.
Rússar hafa svarað því til að árás Bandaríkjanna á Sýrland hafi verið ólögleg og sé til þess fallin að grafa undan samskiptum ríkjanna tveggja. Í The Independent í gær var meðal annars fullyrt að stjórnvöld í Rússlandi og Íran væru nú að stilla saman strengi, og ætluðu sér ekki að láta Bandaríkin „stíga yfir rauðu línuna“ aftur með því að gera árás á Sýrland.
Samhliða þessum aðgerðum Bandaríkjanna í Sýrland þá hefur spennan verið að aukast í samskiptum Norður-Kóreu annars vegar, og Bandaríkjanna, Suður-Koreu og Japans hins vegar. Bandaríkin hafa nú þegar aukið viðbúnað sinn með því að senda á vettvang í Japanshafi, fleiri og betur vopnum búin herskip.
Tilraunir Norður-Kóreu, undir stjórn leiðtogans Kim-Jong Un, með langdræg flugskeyti og kjarnaorkuvopn, þykja ögrun við heimsfriðinn og hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti sagt að hann sé tilbúinn að beita frumkvæðishernaði - án stuðnings annarra ríkja - til að stöðva ögranir Norður-Kóreu.