G7 ríkin komu sér ekki saman um auknar refsiaðgerðir gagnvart Rússlandi á fundi sínum í gær og í dag. Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, hafði lagt fram tillögu þess efnis að refsiaðgerðir yrðu hertar vegna efnavopnaárásinnar í Idlib-héraði í Sýrlandi í síðustu viku. Sýrlensk stjórnvöld, sem Rússar hafa aðstoðað í stríðinu í Sýrlandi, eru sögð bera ábyrgð á árásinni.
Angelino Alfano, utanríkisráðherra Ítalíu, sagði eftir fundinn að G7 hópurinn vildi ekki stilla Rússum upp við vegg, heldur kysi frekar samræður við þá, samkvæmt BBC. Fundurinn var haldinn í borginni Lucca á Ítalíu. Ríkin telji að Rússar hafi þau áhrif sem þarf til að þrýsta á Bashar al-Assad og fá hann til þess að virða vopnahlé.
Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fór beint af fundinum til Moskvu, þar sem hann mun funda með stjórnvöldum. Fundur G7 ríkjanna var ætlaður til þess að stilla saman strengi ríkjanna gagnvart Sýrlandi fyrir þann fund.
Þrátt fyrir að ekki hafi náðst samkomulag um refsiaðgerðir sagði Boris Johnson að hann liti ekki á það sem ósigur. Það væri samkomulag um refsiaðgerðir ef frekari sannanir fyrir ábyrgðinni á efnavopnaárásinni fengjust.
Þá voru utanríkisráðherrarnir sammála um framtíð Assad Sýrlandsforseta. „Það er okkur öllum ljóst að valdatíð Assad-fjölskyldunnar er að líða undir lok,“ sagði Tillerson. Hann hlaut einnig stuðning á fundinum við eldflaugaárás Bandaríkjamanna, sem þeir gerðu á herflugvöll til að bregðast við efnavopnaárásinni sem varð 89 að bana.
Tillerson sagði eldflaugaárásina hafa verið nauðsynlega sem varnarmál í Bandaríkjunum. Það mætti ekki til þess hugsa að efnavopn sýrlenskra stjórnvalda lentu í fórum Íslamska ríkisins eða annarra hryðjuverkahópa sem gætu og vildu ráðast á Bandaríkin eða bandamenn þeirra. Hann er nú kominn til Moskvu, og mun funda með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, á morgun.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti ræddi við blaðamenn í dag og líkti ásökununum um efnavopnaárásina við það þegar sagt var að Saddam Hussein, þáverandi einræðisherra Íraks, byggi yfir miklu magni efnavopna. Það reyndist síðar ekki vera rétt. „Þetta minnir mig á atburðina 2003 þegar erindrekar Bandaríkjanna hjá Öryggisráðinu sýndu það sem þeir sögðu að væru efnavopn sem fundust í Írak. Við höfum séð þetta allt áður,“ sagði Pútín við blaðamenn í dag.
Pútín sagði líka að Rússar hefðu upplýsingar um það að Bandaríkjamenn áformuðu fleiri eldflaugaárásar á Sýrland, og að áform væru uppi um að setja á svið fleiri efnavopnaárásir. Það ætti að koma fyrir efnavopnum og kenna sýrlenskum stjórnvöldum um. Hann færði engar sönnur á þetta.
Pútín sagði jafnframt að Rússar myndu óska eftir því að Sameinuðu þjóðirnar rannsökuðu efnavopnaárásina í Idlib.