Norður-Kórea, með ólíkindatólið Kim Jong-Un í broddi fylkingar, segist „tilbúin í stríð“ við Bandaríkin og allar þær þjóðir sem beita landið órétti.
Í yfirlýsingu frá stjórnvöldum, sem vitnað er til í umfjöllun ríkisfréttastofu Norður-Kóreu, segir að Norður-Kórea fordæmi harðlega þá ákvörðun bandarískra stjórnvalda að senda flotadeild til hafsvæðisins við Kóreuskagann.
Carl Vinson-flotadeildinni var í fyrr í vikunni snúið af leið sinni í heimsókn til Ástralíu og stefnt til Kóreuskagans, vegna vaxandi ógnar frá Norður-Kóreu. Deildinni fylgir flugmóðurskip, þyrlusveit, flugskeytaskotpallar og fleiri vopn sem hægt er að beita með litlum fyrirvara.
Stjórnvöld í Norður-Kóreu segja að Bandaríkin séu með framferði sínu að ganga of langt, og nú sé spennan milli landanna komin á alvarlegt stig.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt að Bandaríkin séu tilbúin að grípa til aðgerða, án aðstoðar frá öðrum, til að draga úr hættunni af langdrægum flaugum Norður-Kóreu og kjarnorkuvopnaógninni sem stafar frá landinu.