Gunnar Smári Egilsson, fyrrverandi útgefandi og stærsti eigandi Fréttatímans, segist horfa til þess að stofna Sósíalistaflokk Íslands 1. maí. Á vefsíðu flokksins hefur nú verið útbúið skráningarform þar sem fólk getur skráð sig í flokkinn.
Gunnar Smári hefur staðið í ströngu að undanförnu vegna rekstrarerfiðleika útgáfufélags Fréttatímans, en hann er stærsti einstaki hluthafinn í félaginu samkvæmt vef Fjölmiðlanefndar með 46 prósent hlut. Fram hefur komið að hluthafar, kröfuhafar og stjórnefndur leiti nú leiða til að bjargar rekstri félagsins, en ekki er útséð með það enn. Reksturinn stendur illa, og hefur ekki tekist ennþá að greiða öllum starfsmönnum laun vegna síðasta mánaðar.
Gunnar Smári er horfinn á braut, og er nú tekinn við að stofna sjórnamálaflokk. Hann segist leggja áherslu á að vald verði fært til fólksins og að almannahagsmunir fái alltaf að ráða för, ekki „auðvaldið“.
Orðrétt segir á vef flokksins, að hann leggi áherslu á málefni launafólks og stéttabaráttu. „Sósíalistaflokkur Íslands er flokkur launafólks og allra þeirra sem búa við skort, ósýnileika og valdaleysi. Andstæðingar Sósíalistaflokks Íslands eru auðvaldið og þeir sem ganga erindi þess. Vettvangur Sósíalistaflokks Íslands er breið stéttabarátta sem hafnar málamiðlunum og falskri samræðu.
Í starfi sínu leggur Sósíalistaflokkur Íslands áherslu á það sem sameinar fólkið í landinu; óréttlætið sem það mætir og viljann til að losna undan því. Öllum landsmönnum er velkomið að ganga til liðs við flokkinn, óháð kyni, uppruna, trú eða kynhneigð,“ segir á vef Sósíalistaflokksins.
Eins og fram kom á vef Kjarnans í gær, þá horfir Gunnar Smári sérstaklega til fimm upphafsmála þegar kemur að starfi Sósíalistaflokksins.
Eftirfarandi atriði eru upphafsmál Sósíalistaflokksins
- Mannsæmandi kjör fyrir alla landsmenn, hvort sem þeir eru launamenn, atvinnulausir, bótaþegar, námsmenn eða heimavinnandi.
- Aðgengi án takmarkana að öruggu og ódýru húsnæði.
- Aðgengi án takmarkana að gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi, að gjaldfrjálsri menntun á öllum skólastigum og að gjaldfrjálsu velferðarkerfi sem mætir ólíkum þörfum fólksins í landinu.
- Stytting vinnuvikunnar, til að bæta lífsgæði fólksins í landinu og auðvelda því að gerast virkir þátttakendur í mótun samfélagsins.
- Enduruppbygging skattkerfisins svo auðstéttin greiði eðlilegan hlut til samneyslunnar en álögum sé létt af hinum verst stæðu.