Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, segir að eitt af því sem þurfi að skoða til að mæta húsnæðisvanda Íslendinga séu takmarkanir á Airbnb-útleigu.
Þetta kom fram í fyrsta þætti Kjarnans á Hringbraut, þar sem Þorsteinn var gestur. „Við sjáum bara til dæmis íbúaþróun í miðborginni, á tiltölulega skömmum tíma hefur fækkað um tíu prósent, á fáum árum. Það segir okkur auðvitað að það er ástæða til að staldra þarna við.“
Líkt og Kjarninn greindi frá fyrr í vikunni hefur íbúum miðborgarinnar fækkað um tæplega 800, um 10%, frá árinu 2011. Miðborgin er eina hverfi borgarinnar þar sem færri búa nú en gerðu fyrir sex árum síðan, en síðustu tvö ár hefur íbúum í Vesturbæ Reykjavíkur líka farið fækkandi.
„Auðvitað viljum við ekki heldur að ferðamennirnir sem koma hér inn í miðbæinn séu bara að koma inn í samvaxið hótel- og hótelíbúðasvæði. Við viljum að það séu einhverjir íbúar,“ segir Þorsteinn.
Hann segir að með svipuðum hætti og sveitarfélögin takmarka og stýra því hvar opnaðir eru veitingastaðir, kaffihús og barir, sé hægt að skoða að takmarka útleigu á Airbnb. Sveitarfélögin hljóti að líta til þess.