Donald Trump Bandaríkjaforseti og trúnaðarmenn hans, hafa að undanförnu sett meiri pressu á stjórnvöld í Kína og óskað eftir því að þau stígi inn í deilurnar milli Bandaríkjamanna og Norður-Kóreu með afgerandi hætti. Samkvæmt upplýsingum Wall Street Journal þá vilja stjórnvöld í Bandaríkjunum að Kínverjar gefi það í skyn með óyggjandi hætti að Norður-Kórea hafi engan stuðning hjá Kínverjum.
Slík yfirlýsing hefur ekki komið fram ennþá, þrátt fyrir að Kínverjar hafi talað fyrir því að Norður-Kórea, með hinn óútreiknanlega Kim Jong-Un í broddi fylkingar, láti af tilraunum með langdreygar flaugar, þá hefur það engu skipt fyrir Norður-Kóreu. Jong-Un segir herinn í Norður-Kóreu tilbúinn í stríð við Bandaríkin.
Samkvæmt skrifum Wall Street Journal er spennan á Kóreuskaga nú sögð rafmögnuð, og líkur á að átök brjótist út á milli Bandaríkjahers og hers Norður-Kóreu hafa aukist mikið á síðustu dögum. Jafnvel þó síðasta tilraun Norður-Kóreu með langdrægar flaugar hafi mistekist þá er talið að Norður-Kórea ætli hvergi að hætta og frekar bæta í. Í yfirlýsingum frá stjórnvöld í Norður-Kóreu hefur birst vilji til að gera árásir á Bandaríkin og hafa stjórnvöld í Suður-Kóreu og Japan sagt að full ástæða sé til að taka tilraunir landsins með kjarnorkuvopn og langdrægar flaugar alvarlega.
Bandaríkjaher er nu kominn með flotadeild á Japanshaf og fjölmennt lið í Suður-Kóreu, þar sem her nágrannana í Suður-Kóreu hefur notið góðs af stuðningi hersins lengi. Trump hefur ítrekað það að undanförnu að Bandaríkin séu tilbúin til þess að takast á við ógnina í Norður-Kóreu ein og óstudd, en hafa óskað eftir stuðningi annarra ríkja.