Aðstoðarutanríkisráðherra Norður-Kóreu, Hang Sol-Ryol, segir í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC að Norður-Kórea ætli sér að fjölga tilraunum með langdræg flugskeyti og kjarnorkuvopn. Svo gæti farið að skotið verði vikulega næsta árið.
Þá segir hann að ef Bandaríkin ákveði að ráðast á landið þá verði því mætt af fullri hörku. Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, hefur biðlað til Norður-Kóreu um að vera ekki að „prófa“ hvernig þolinmæðin er hjá Donald Trump, Bandaríkjaforseta. Hann segir Norður-Kóreumenn þurfa að hætta tafarlaust tilraunum sínum með langdrægar eldflaugar og kjarnavopn.
Pence kom til Suður-Kóreu í gær, eftir að tilraun Norður-Kóreu með flugskeyti hafði mistekist, og sagði þá að þolinmæðin væri á enda. Nú væri ekki hægt að sitja hjá og gera ekkert.
Bandaríkin hafa biðlað til Kínverja um að stíga inn í deiluna, og segja Norður-Kóreu að hætta tilraunum sínum. Til þess hefur Kim Jong-Un, leiðtogi landsins, látið allt slíkt tala sem vind um eyru þjóta, og boðar nú enn meiri flugskeytaskot út í loftið og út á Japanshaf.
Þau skeyti sem hafa lent næst Japan hafa verið í um 300 kílómetra fjarlægð, en stjórnvöld í Japan hafa formlega óskað eftir því að Sameinuðu þjóðirnar beiti sér sem og Bandaríkin, til að koma í veg fyrir þá ógn sem stafar frá Norður-Kóreu.
Spennan á Kóreuskaga er nú sögð áþreifanleg, og að átök geti brotist út á hverri stundu.