Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, vill boða til þingkosninga í Bretlandi. Kosningarnar eiga að fara fram þann 8. júní næstkomandi.
Þetta tilkynnti May rétt í þessu á blaðamannafundi. Hún sagði að eftir að Bretar ákváðu að ganga út úr Evrópusambandinu í júní í fyrra hafi þjóðin þurft stöðugleika og sterka leiðtoga. Það hafi hennar ríkisstjórn veitt frá því að hún tók við síðastliðið haust.
Hún hafi áður sagt að ekki ætti að boða til kosninga fyrr en á hefðbundnum tíma, árið 2020, en nú hafi hún komist að þeirri niðurstöðu að eina leiðin til að tryggja stöðugleika sé að boða til kosninga.
Stjórnarandstöðuflokkarnir séu mótfallnir áformum Íhaldsflokksins um Brexit, og til að mynda hafi Verkamannaflokkurinn hótað að greiða atkvæði gegn útgöngusamningi úr Evrópusambandinu. Hún sé ekki reiðubúin til að leyfa andstæðingum sínum að setja Brexit samningaviðræðurnar í uppnám, og því þurfi að halda kosningar.
May mun því flytja tillögu um kosningarnar í breska þinginu á morgun. Þingið þarf að samþykkja tillöguna til þess að af kosningunum verði. Til þess að af því verði þurfa stjórnarandstöðuþingmenn að greiða atkvæði með tillögunni, þar sem tvo þriðju hluta atkvæða þarf til þess að tillagan verði samþykkt.
Með tillögunni má segja að May sé að skora stjórnarandstöðuna á hólm. Hún sagði að stjórnarandstaðan ætti að samþykkja tillögu hennar og leyfa bresku þjóðinni að ákveða.