Upplýsingar um eignarhald á Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins og Mbl.is, var uppfært á heimasíðu Fjölmiðlanefndar í gær, 18. apríl. Félagið Ramses II, í eigu Eyþórs Arnalds, er nú skráð með 26,62 prósent eignarhlut og er stærsti einstaki eigandi Þórsmerkur ehf., eiganda Árvakurs. Engar upplýsingar hafa verið gefnar um kaupverð á hlutnum, en Eyþór keypti hann af Samherja, Vísi og Síldarvinnslunni.
Eyþór er þar með orðinn stærsti einstaki eigandi Árvakurs. Félög tengd Ísfélagi Vestmannaeyja eru hins vegar enn með samanlagt stærstan eignarhlut. Ísfélagið á sjálft 13,43 prósent hlut og félagið Hlynur A, í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, aðaleiganda Ísfélagsins, á 16,38 prósent hlut. Auk þess á félagið Legalis 12,37 prósent hlut. Eigendur þess eru m.a. Sigurbjörn Magnússon, stjórnarformaður Árvakurs og stjórnarmaður í Ísfélaginu, og Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Ísfélagsins. Samanlagður hlutur þessarar blokkar í Árvakri er 42,18 prósent. Gunnlaugur Sævar er einnig eigandi að hlut í Lýsi ehf., sem á 1,97 prósent hlut í Árvakri. Bæði Gunnlaugur Sævar og Sigurbjörn sitja í stjórn þess fyrirtækis.
Aðrir eigendur eru að mestu aðilar tengdir íslenskum sjávarútvegi. Á meðal Þeirra eru Kaupfélag Skagfirðinga, Rammi hf. og Skinney-Þinganes.
Kaup félags Eyþórs á hlut í Þórsmörk eru háð þeim fyrirvara að aðrir eigendur nýti sér ekki forkaupsrétt.
Árvakur hefur tapað 1,5 milljarði króna frá því að nýir eigendur tóku við félaginu 2009 og fram til loka árs 2015. Á þeim tíma hafa þeir eigendur sett að minnsta kosti 1,2 milljarða króna í rekstur félagsins og fengið 4,5 milljarða króna afskrifaða hjá Íslandsbanka. Tap Árvakurs var 164 milljónir króna á árinu 2015. Ársreikningur fyrir árið 2016 hefur ekki verið birtur en Haraldur Johannessen, framkvæmdastjóri Árvakurs og ritstjóri Morgunblaðsins, sagði í tilkynningu í fyrrahaust að líkur væru á hallarekstri á árinu 2016 líka. Samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskráar var hlutafé Árvakurs aukið um 7,4 prósent í nóvember í fyrra og hækkunin öll greidd með peningum.