Útgáfufélagið Pressan er að ljúka hlutafjáraukningu fyrirtækisins, en hlutafé verður aukið um 300 milljónir króna. Breiður hópur fjárfesta kemur að rekstrinum með hlutafjáraukningunni, samkvæmt tilkynningu frá Pressunni.
Samhliða þessu mun Björn Ingi Hrafnsson, stjórnarformaður og útgefandi, hætta þeim störfum. Hann hverfur nú að eigin ósk til annarra verkefna innan samstæðunnar, að því er fram kemur í tilkynningunni.
Gunnlaugur Árnason verður nýr stjórnarformaður, en hann er eigandi breskra fjölmiðlafyrirtækja og starfaði um fimm ára skeið sem blaðamaður hjá Reuters í London, auk þess sem hann var ritstjóri Viðskiptablaðsins árin 2005 til 2007.
Aðrir sem setjast í stjórn eru Þorvarður Gunnarsson, fyrrum forstjóri Deloitte á Íslandi, Sesselja Vilhjálmsdóttir framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins TagPlay og Halldór Kristmannsson yfirmaður Samskipta- og markaðssviðs lyfjafyrirtækisins Alvogen.
Félag sem er í eigu Halldórs, Róberts Wessman, Árna Harðarsonar, Hilmars Þórs Kristinssonar og Jóhanns G. Jóhannssonar, Fjárfestingafélagið Dalurinn ehf., kemur inn með 155 milljónir króna.
Björn Ingi Hrafnsson og viðskiptafélagi hans, Arnar Ægisson, taka þátt í hlutafjáraukningunni og samkvæmt tilkynningunni leggur félag í þeirra eigu fram 50 milljónir króna. Félag Hreins Loftssonar, Karls Steinars Óskarssonar og Matthíasar Björnssonar eignast einnig hlut í Pressunni, en þeir áttu áður Bírting. Karl Steinar verður framkvæmdastjóri félagsins og Matthías Björnsson fjármálastjóri þess.
Andri Gunnarsson, Fannar Ólafsson og Gestur Breiðfjörð Gestsson eru eigendur félags sem kemur inn í eigendahópinn, en Fannar er bróðir Bjartar Ólafsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra.
Þá er verktakafyrirtækið Eykt ehf. skráð meðal nýrra hluthafa, en það er í eigu stjórnarformannsins Péturs Guðmundssonar. Skúli Gunnar Sigfússon, Sigurvin Ólafsson og Viggó Einar Hilmarsson eiga einnig allir félög sem koma inn í hluthafahópinn.
Pressan gefur út fjölda fjölmiðla, meðal annars Pressuna, Eyjuna og DV, og nýlega heimilaði Samkeppniseftirlitið að félagið tæki yfir tímaritaútgáfuna Bírting, sem gefur út ýmis tímarit. Gert er ráð fyrir því samkvæmt tilkynningunni að sameiginleg velta Pressunnar og tengdra félaga verði um 1,3 milljarður króna á þessu ári.