Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir að nú sé nóg komið í Helguvík og loka þurfi kísilmálmverksmiðjunni þar á meðan ýmsir öryggisþættir eru kannaðir til fullnustu. Þetta kemur fram á Facebook-síðu ráðherrans í kjölfar eldsvoða í verksmiðju United Silicon í nótt.
Björt segir að í fyrsta lagi þurfi að kanna hvers vegna íbúar í grennd við verksmiðjuna upplifi einkenni sem mengunarmælingar geti ekki útskýrt. Þá þurfi að kanna vinnuaðstæður sérstaklega. Í þriðja lagi þurfi að kanna fjármögnun verksmiðjunnar, því fyrirtækið þurfi fjármagn.
„Hverjir eru að bjóða það fram núna? Ég ætla rétt að vona að það séu ekki sameiginlegir sjóðir þeirra sömu landsmanna og ýta á að fyrirtækið loki,“ skrifar ráðherrann.
Eldur braust út í verksmiðjunni í Helguvík í nótt. Samkvæmt RÚV logaði í trégólfum á þremur hæðum hússins, en timbrið er notað til að einangra rafskaut sem leiða rafmagn í ofn í ofnhúsi verksmiðjunnar. Ofnhúsið er það eina sem má vera í notkun, samkvæmt ákvörðun Umhverfisstofnunar.
Stofnunin úrskurðaði í síðasta mánuði að fara þurfi fram verkfræðileg úttekt á hönnun og rekstri verksmiðjunnar, og þangað til niðurstaða liggur fyrir um þörfina á úrbítum í rekstrinum er ljósbogaofn það eina sem má vera í starfsemi.
Lesa má færslu umhverfisráðherra hér að neðan.