Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er mótmælt. ASÍ segir nýframlagða áætlun fela í sér alvarlega aðför að velferðarkerfinu.
Gagnrýni ASÍ er sett fram í níu punktum þar sem fjallað er um atvinnuleysistryggingar, heilbrigðisþjónustuna, bótakerfin, fæðingarorlofsjóð, húsnæðismarkaðinn og örorkulífeyriskerfið.
Ríkisstjórnin lagði fram fjármálaáætlun ríkissjóðs til næstu fimm ára 31. mars síðastliðinn. Samkvæmt henni munu útgjöld ríkissjóðs aukast umtalsvert á næstu fimm árum. Heildarútgjöld munu vaxa um 208 milljarða króna yfir allt tímabilið og frumgjöld sem nemur 223 milljörðum króna.
Stærstu útgjaldaliðirnir verða heilbrigðis- og velferðarmál. Raunvöxtur á útgjöldum til heilbrigðismála mun verða 22 prósent á tímabilinu og vöxtur á framlögum úr ríkissjóði til velferðarmála verður 13 prósent.
Á meðal þeirra verkefna sem ráðist verður í samkvæmt áætluninni eru bygging nýs Landsspítala, kaup á þremur þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna, útgjöld til háskólastigsins verða aukin til að það standist alþjóðlegan samanburð, hámarksgreiðslur foreldra í fæðingarorlofi verða hækkaðar, frítekjumark eldri borga hækkað, stofnframlög veitt til að byggja almennar leiguíbúðir, úrræði til kaupa á fyrsta húsnæði styrkt, notendastýrð persónuleg aðstoð lögfest og tekið verður á móti stórauknum fjölda kvótaflóttamanna og hælisleitenda. Þá verður tekið á loftlagsmálum með heildrænum hætti og það tvinnað inn á mörg málefnasvið.
ASÍ bendir á að skerða á réttindi atvinnuleitenda og stytta bótatímabil þeirra sem þyggja atvinnuleysisbætur úr 30 mánuðum í 24. „Þetta er alvarleg aðför að grundvallar réttindum launafólks,“ segir í tilkynningu ASÍ.
Heilbrigðiskerfið hefur verið mikið í umræðunni undanfarið og stjórnmálamenn og ráðamenn gefið ýmis loforð um að nú verði að auka útgjöld til kerfisins. ASÍ bendir á að þrátt fyrir gefin loforð líti út fyrir að heilbrigðisþjónustan verði áfram vanfjármagnaður. Þá gagnrýnir Alþýðusambandið ýmsar útfærslur á heilbrigðis- og bótakerfinu sem tíundaðar eru í fjármálaáætluninni og sambandið telur kostnaðinn sem af hlýst falla á notendur þjónustunnar.
Fjárlaganefnd Alþingis hefur þingsályktunartillöguna um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til umfjöllunar. Umsagnarfrestur er til 21. apríl.