Jakob Sigurðsson hefur sagt starfi sínu lausu sem forstjóri Vátryggingafélags Íslands (VÍS). Hann hefur verið ráðinn forstjóri breska félagsins Victrex plc. Hann mun starfa áfram sem forstjóri VÍS á meðan stjórn vinnur að því að finna eftirmann hans og þannig tryggja að forstjóraskipti hafi sem minnst áhrif á félagið. Frá þessu er greint í tilkynningu til Kauphallar.
Victrex plc. er skráð á hlutabréfamarkað í Bretlandi, er hluti af FTSE 250 hlutabréfavísitölunni og er markaðsverðmæti þess 250 milljarðar króna. Félagið er leiðandi í framleiðslu fjölliða og telja viðskiptavinir þess t.a.m. stærstu flugvéla- og snjalltækjaframleiðendur heims.
Jakob segir að tími hans sem forstjóri VÍS hafi orðið styttri en hann reiknaði með. Tækifærið sem hafi boðist hafi hins vegar verið þess eðlis að það væri ekki hægt að hafna því. „Ég hef mikla trú á þeirri vegferð sem VÍS er á og óska starfsmönnum góðs gengis í þeim verkefnum sem framundan eru um leið og ég þakka þeim af alhug samfylgdina síðustu mánuði.”
Jakob var ráðinn forstjóri VÍS í lok ágúst í fyrra. Hann sinnti því starfinu í um átta mánuði. Jakob tók við starfinu af Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur sem hafði verið forstjóri VÍS um árabil. Hún var eina konan sem stýrði skráðu félagi á Íslandi þar til henni var sagt upp störfum. Nú er engin kona í forstjórastóli skráðs félags.