Fríblaðið Fréttatíminn mun ekki koma út í þessari viku. Blaðið kom síðast út fyrir tveimur vikum síðan og starfsmenn hafa ekki mætt til vinnu síðan að sú útgáfa var prentuð.
Á vef RÚV er greint frá því að enginn þeirra starfsmanna Fréttatímans sem eiga inni laun sem áttu að greiðast út um síðustu mánaðarmót hafa fengið þau laun greidd. Þar er rætt við Valdimar Birgisson, framkvæmdastjóra Fréttatímans, sem greinir frá því að starfsemi blaðsins hafi legið niðri síðustu vikurnar. Hann segist sjálfur hafa unnið að því að fá nýja fjárfesta að útgáfunni og að það sé forsenda þess að hún haldi áfram. Það hafi ekki tekist enn þó að margir séu áhugasamir.
Fríblaðið Fréttatíminn kom síðast út föstudaginn 7. apríl. Ekki hefur formlega verið tilkynnt um hver afdrif þess verða en starfsmenn blaðsins hafa ekki verið boðaðir til vinnu síðan að gerð þess tölublaðs lauk. Hluti starfsmanna, um tugur, hefur enn ekki fengið greidd laun sem áttu að greiðast um síðustu mánaðamót.
Fréttablaðið greindi frá því fyrir skemmstu að tap Fréttatímans, samkvæmt rekstrarreikningi, hefði verið 151 milljón króna á árinu 2016. Tapið tífaldaðist á milli ára.
Gunnar Smári Egilsson, sem leiddi hóp sem keypti útgáfufélag Fréttatímans síðla árs 2015, hætti afskiptum af útgáfunni í byrjun apríl. Í stöðuuppfærslu á Facebook sagði hann það hafa verið gert á „meðan lánardrottnar, aðrir hluthafar, starfsfólk og mögulegir kaupendur leituðu nýrra lausna.“